154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Reykjavíkurflugvöllur og ný byggð í Skerjafirði.

[10:51]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp, reyndar ekki í fyrsta skipti, og það er ekki í fyrsta skipti sem ráðherra hefur sagt að það sé ljóst að Reykjavíkurflugvöllur verði þar sem hann er um langa framtíð og áratugi. Það er ekki í fyrsta skipti, það er örugglega í tíunda skipti sem ráðherra hefur sagt það, vegna þess að jafnvel þó að niðurstaðan hefði verið sú, sem ég get ekki sagt til um, að Hvassahraun væri frábær staður til uppbyggingar þá tekur það allt að 20 ár að byggja upp slíkan flugvöll eftir að slík ákvörðun er tekin, þannig að það liggur í augum uppi. Það ætti ekki að koma nokkrum manni á óvart. Ég hef sagt það margoft.

Varðandi síðan fyrirhugaða byggð í Skerjafirði er það rangt hjá hv. þingmanni að eina mótvægisaðgerðin hafi verið sú að rýra nýtingu vallarins. Það voru fleiri tillögur og þær tillögur eru eftir því sem ég best veit enn þá í vinnslu, enda ekki hafnar neinar framkvæmdir þar. Þær munu líka taka nokkuð langan tíma. Mér skildist að í því ferli þyrfti að fara í umtalsverð jarðvegsskipti og lagfæringar á því svæði þannig að það er kannski engin hraðlausn á því ástandi að geta bætt byggingar hratt og vel. Það getur vel komið til greina þegar mótvægisaðgerðirnar hafa verið rýndar og þær skoðaðar og samræmast þeirri skýrslu sem þar var unnin, því að ég er sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt að tryggja flugöryggi og rekstraröryggi innanlandsflugsins og Reykjavíkurflugvöllur er lykilatriði í þeirri starfsemi. Ég vil bara segja að þar hefur ekkert breyst. Það kemur skýrsla um þetta Hvassahraunsmál væntanlega í mars. Hún hefur tafist í vinnslu af ýmsum ástæðum en er að koma núna fram. Ég ætla bara að bíða með allar yfirlýsingar um það vegna þess að við erum að reyna að vinna þannig að taka ákvarðanir á grundvelli vísinda og þekkingar en ekki taka ákvarðanir áður en þær liggja fyrir.