154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

626. mál
[11:31]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að fjárlaganefndin öll sé mjög einhuga um að vinna þetta mál vel og vilji gera sem allra best í því samhengi. Snögg yfirferð á þessu frumvarpi af hálfu hæstv. fjármálaráðherra sýnir að fjárheimildirnar hérna eru um 7,5 milljarðar. Það er talað um aðgerðir til svokallaðs millilangs tíma, hjó ég eftir. Ég myndi vilja taka undir sjónarmið hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur hvað varðar Bríeti og hvet hæstv. fjármálaráðherra til að kynna sér umræður og jafnvel bókanir í fjárlaganefnd um það mál hér fyrir jól því að það skiptir máli að lagaumgjörðin þar standist skoðun.

Mig langaði hins vegar til þess að ræða stuttlega við ráðherra um atvinnuhlið þessa frumvarps. Við þekkjum öll sögurnar af því, og það á við um Grindavík eins og önnur bæjarfélög, að fólk býr og starfar innan sama bæjarfélags og er með sinn rekstur þar. Hér er verið að tala um nýtt úrræði um tímabundinn rekstrarstuðning þannig að mig langaði bara að fá frekari umfjöllun hæstv. ráðherra um nánari hugsun þar að baki því að mér hefur fundist fyrstu viðbrögð vera mjög um það að ræða fyrst húsnæðismálin og svo atvinnu. Það var auðvitað skiljanlegt í blábyrjun málsins en atvinnulíf og bær verða ekki í sundur skilin. Atvinnulífið er hjarta bæjarins og því myndi ég vilja heyra í ráðherra um þessa beinu styrki sem verið er að tala um. Telur hæstv. ráðherra að frumvarpið grípi þá rekstraraðila sem á þurfa að halda, að hér sé stigið nægilega stórt skref? Ég skil frumvarpið þannig að hér sé um að ræða 1,5 milljarða til næstu sex mánaða. Hver er sá stokkur sem frumvarpinu er ætlað að ná til og nær hann til allra sem eru þurfi?