154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

norrænt samstarf 2023.

625. mál
[13:20]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður biður ekki um lítið, að sálgreina íslenska þingið. Nei, ég held að vandinn við umræðu um varnarmál hér á landi sé sá að í fortíðinni var þessi umræða einskorðuð við bara eina skrifstofu í utanríkisráðuneytinu sem í rauninni gerði kannski lítið annað en að ræða við kollega sína í Bandaríkjunum sem voru með herstöð hérna og stýrðu allri stórri mynd. Það var hlutverk íslenskra stjórnvalda að greiða leið þeirra framkvæmda og hugmynda. Hér byggðist aldrei upp sérþekking á þessu sviði til að vera með sjálfstætt mat. Enn eimir eftir af þessu og maður tekur eftir því t.d. þegar íslenskir ráðherrar mæta á fundi Atlantshafsbandalagsins að það eru ákveðin atriði sem þeir snerta ekki við. Ég hef t.d. ekki heyrt afgerandi yfirlýsingar frá núverandi forsætisráðherra gegn kjarnavopnum í tengslum við uppfærslu á grunnstefnu NATO þrátt fyrir að það sé bæði orðað í þjóðaröryggisstefnu Íslands og sé hluti af stefnu hennar flokks. Það hefði kannski verið ágætt að hnykkja aðeins á þeirri umræðu á þeim vettvangi. Ég held að íslenskir ráðherrar vilji síður gera sig of gildandi á þessum vettvangi vegna þess að þeim finnst þeir kannski varla mega það einu sinni. Sem herlausa og þjóðin innan NATO þá eigum við bara að vera til friðs.

Hvað varðar uppbygginguna sem á sér stað án umræðu þá held ég að það sé líka vegna leyndarhyggjunnar sem er utan um varnarmálin. Við erum með skrifstofu í ráðuneytinu, við erum með utanríkismálanefnd í þinginu, við erum með samstarfsaðila í öðrum löndum. Þetta fólk er kannski allt að tala saman og líður eins og þetta sé allt rætt í ræmur (Forseti hringir.) en það er alltaf innan þessa leyndarhjúps, þannig að út í samfélaginu heyrir enginn af þessu fólki sem tekur ákvarðanir (Forseti hringir.) en því líður eins og það hafi bara verið hellingur af samráði því að það er búið að tala við fullt af fólki sem síðan talar ekki við neinn annan.