154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2023.

656. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. ÞEFTA (Ingibjörg Isaksen) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Magnúsi Árna Skjöld Magnússyni fyrir hans ræðu og bara í rauninni söguskýringar. Það er búið að vera mjög upplýsandi og áhugavert að hlusta á hans mál. Hann fór yfir mikilvægi EES-samningsins sem einmitt verður 30 ára í ár og mikilvægi samningsins fyrir Ísland og íslenskt viðskiptalíf og hagsmuni Íslands. Það má segja að það hafi varla í sögu landsins verið gerður jafn mikilvægur samningur fyrir Íslands hönd og þessi samningur.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í er þessi málflutningur Samfylkingarinnar varðandi Evrópusambandið og inngöngu í sambandið. Hann talaði um vettvanginn, Evrópusambandið, og að eiga rödd við borðið og geta tekið ákvarðanir og annað en á meðan hefur maður heyrt formann Samfylkingarinnar tala um það að hún leggi ekki áherslu á inngöngu í Evrópusambandið. Hver er stefna Samfylkingarinnar í þessu stóra máli?