154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

eftirlit með vistráðningum.

504. mál
[18:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Forseti. Í lögum um útlendinga eru tilgreindar ýmsar tegundir dvalarleyfa, þar á meðal vegna vistráðningar utan úr heimi, betur þekkt sem au-pair. Slíkt dvalarleyfi er tímabundið og telur ekki upp í varanlega heimild til dvalar hér á landi. Samkvæmt lögunum er Útlendingastofnun skylt að fela sérstökum eftirlitsaðila að hafa eftirlit með vistráðningum, þar með talið að taka út aðstæður á heimili vistfjölskyldu, svo sem með óboðuðu eftirliti, með því að taka viðtöl við hinn vistráðna og vistfjölskyldu og sjá til þess að vistráðningarsamningur sé virtur í hvívetna. Vistráðningarsamningur er forsenda dvalarleyfis vegna vistráðningar. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er tilgangur ákvæðisins sá að koma í veg fyrir misnotkun á vistráðnum einstaklingum og gæta þess að þeim sé boðið upp á nægilega góða aðstöðu á heimili. Á milli hins vistráðna og vistfjölskyldu er eðli málsins samkvæmt ákveðinn aðstöðumunur, valdaójafnvægi, enda er hinn vistráðni yfirleitt ungur að árum, langt frá heimahögum sínum, er háður vistfjölskyldu sinni um búsetu og fæði auk þess sem slit á vistráðningarsamningi getur leitt til afturköllun dvalarleyfis.

Eftirlit þetta er ekki nánar útfært í lögunum. Sú tilhögun að fela sérstökum eftirlitsaðila að sinna könnun á aðstæðum vistráðinna einstaklinga kom ný inn árið 2023 en áður var eftirlitið í höndum lögreglu sem þótti ekki gefast vel sökum mikilla anna á þeim bænum. En nú er það einstaklingurinn sem veitt hefur verið dvalarleyfi á grundvelli vistráðningarinnar sem á sitt undir því að samningurinn standi. Óljóst er í lögunum hverjar afleiðingar af brotum á samningnum, þ.e. broti á réttindum einstaklingsins, geti verið aðrar en afturköllun dvalarleyfisins sem bitnar augljóslega fyrst og fremst á hinum vistráðna einstaklingi en ekki hinni brotlegu fjölskyldu. Þótti mér því ærið tilefni til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra:

1. Hvaða aðila eða aðilum hefur verið falið að sinna þessu eftirliti?

2. Hvernig er eftirlitinu háttað? Hvernig er það ákveðið hverjir skuli lúta eftirliti og hver ákveður það?

3. Hversu margar ábendingar hafa Útlendingastofnun borist á síðustu fimm árum um hugsanleg brot á vistráðningarsamningi og hvernig hefur stofnunin brugðist við slíkum ábendingum?

Síðast en ekki síst: Hverjar eru mögulegar afleiðingar þess að ekki sé bætt úr vanefndum eða öðrum annmörkum af hálfu vistfjölskyldu í kjölfar eftirlits?