154. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2024.

fjöldi lögreglumanna.

460. mál
[18:56]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég fagna þessari umræðu og þakka hv. þingmanni fyrir að brydda upp á henni. Mig langar til að bæta við spurningu, ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra muni geta svarað henni óundirbúin, ég fæ að lauma henni hérna að. Mig langar að byrja á að benda á að mér skilst að, hvað á að segja, áhugi lögreglumanna á því að bera ákveðna tegund vopna sem kölluð eru rafbyssur og önnur vopn sé ekki síst vegna þess að lögregluliðið er fámennt og hefur ekki þjálfun og þann fjölda sem þarf. Þau eru illa búin undir þær aðstæður sem þau eru sett í, undirmönnuð. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra, ef hún hefur tök á að svara því, hvort gerður hafi verið samanburður á kostnaði við vopnun lögreglunnar til samanburðar við kostnaðinn við það að fjölga í lögregluliði til samræmis við það sem talið er nauðsynlegt. Í þessu sambandi má vekja athygli á því að vegna leiðtogafundar sem haldinn var hér á síðasta ári, sem kostaði um 2 milljarða í heild, fóru hundruð milljóna í það að kaupa búnað fyrir lögregluna (Forseti hringir.) fyrir þann fund sem ekki stóð til að selja. Ég velti fyrir mér hvort það sé búið að bera þetta tvennt saman, kostnaðinn við að vopna lögregluna og umbylta störfum lögreglu á Íslandi í samanburði við hvað myndi kosta að manna hana almennilega.