154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

86. mál
[18:16]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. framsögumaður fór hér yfir kjarna málsins á bak við tillöguna og þá staðreynd að öryggisumhverfi Íslands hefur breyst gríðarlega mikið á skömmum tíma, jafnvel frá því að þessi mál voru til umræðu — og þörf fyrir meiri og opnari umræðu um þessi mál — fyrir kannski 10–15 árum síðan. Mikið hefur breyst, meira að segja frá þeim tíma. Mig langar því að spyrja hv. framsögumann málsins hvernig hann sér fyrir sér að geta jafnvel nálgast þetta á enn breiðari grunni. Í nýrri þjóðaröryggisstefnu, sem hér var vísað til, vorum við að horfa á þessar fjölþáttaógnir, netöryggið, mögulegar árásir á grunninnviði og að þeir standi sem best af sér náttúruhamfarir og slys, umhverfisslys, jafnvel af mannavöldum, eða hryðjuverk og þaðan af verra. Síðan er það áherslan á fæðuöryggi, sem við höfum rækilega verið minnt á að undanförnu, og bara grunninnviðirnir sem þurfa að vera til staðar, tala nú ekki um fyrir land með slíka norðlæga staðsetningu. Sér þingmaður fyrir sér að við gætum sérstaklega ýtt undir upplýsta og góða umræðu um friðar- og öryggismál á breiðum grunni, með þessar nýju áherslur okkar sérstaklega undir? Ég fagna því tækifæri sem hér er verið að benda á og kannski væri gaman að heyra betur frá framsögumanni um hvernig við gætum leitt betur saman að málefnalegri umræðu fræðimenn og áhugafólk sem nálgast hlutina á ólíkan hátt, og haft þá umræðuna jafnvel meiri og opnari heldur en hún er í dag.