154. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2024.

Störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. 75 börn með dvalarleyfi á Íslandi lifa við stöðuga ógn stríðsins sem þau eru föst í. Þessi börn eru fórnarlömb stríðs sem þau eiga engan hlut í. Lífi þeirra er ógnað allan sólarhringinn með stanslausum loftárásum. Þrjú af þessum börnum eru komin í skjól frá þessum skelfilegu stríðsátökum. Þeim var bjargað af þremur huguðum íslenskum konum sem tóku málin í sínar eigin hendur til að koma þremur börnum og móður þeirra hingað til lands en faðir þeirra hefur verið búsettur hér á landi í nokkur ár. Íslensk stjórnvöld virðast ekki vilja bjarga þessum börnum og koma þeim hingað til lands af ótta við að slíkt skapi fordæmi. Er það virkilega slæmt fordæmi ef Ísland er tilbúið til að bjarga börnum fólks sem er búsett á Íslandi úr heljargreipum stríðs? Já, ég rétt vona að við Íslendingar séum tilbúin til að bjarga börnum úr stríði. Ef það er ekki fordæmi sem er vert að skapa þá skammast ég mín svo sannarlega fyrir þá harðneskju sem hið öfuga skapar. Ég neita að trúa því að hér inni sé ekki mikill meiri hluti fyrir því að Ísland sé land mannúðar þegar kemur að því að bjarga börnum af stríðshrjáðum svæðum, ég tala nú ekki um börn sem eiga foreldra sem eru búsettir hér á landi. Það eru 72 börn sem lifa við stöðugan ótta. Það eru 72 börn sem geta misst lífið á næstu dögum og vikum. Það eru 72 börn sem við sem þjóð þurfum að sækja og bjarga úr viðjum stríðsins. Það er skylda okkar sem þjóðar meðal þjóða að standa ekki aðgerðalaus hjá þegar kemur að björgun þessara barna.