154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

Sundabraut.

88. mál
[17:15]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég kem nú ekki síst hingað upp sem þingmaður Grafarvog og má til með að lýsa yfir stuðningi við þetta mál hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur sem ég er meðflutningsmaður á. Mér finnst hvort tveggja mikilvægt að leggja áherslu á brýna þörf fyrir framkvæmdina en vil líka taka undir fjármögnunartillöguna. Sundabraut hefur verið á dagskrá hjá Reykjavíkurborg í 50 ár, fyrst í aðalskipulagi og síðan svæðisskipulagi eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir rakti hér áðan. Sundabrautin var í rauninni forsenda þess að Kjalarnes sameinaðist Reykjavík á sínum tíma. Ég á góðan vin og granna í Hamrahverfinu í Grafarvogi sem keypti sér hús þar af því að Sundabrautin var alveg að fara að koma fyrir 30 árum síðan. Mælanlegt hlutfall íslensku þjóðarinnar hefur setið í starfshópum og ráðgjafahópum um alls konar útfærsluatriði og hugmyndir og á meðan hefur Reykjavíkurborg unnið að því statt og stöðugt að þrengja möguleika á lagningunni, sem er ótrúlegt, ekki bara af því að þjóðhagslegi ábatinn er svo óumdeildur og ákallið er hávært — við sem sitjum föst í viðjum draumóra meiri hlutans í Reykjavík í umferðinni á hverjum degi getum hreinlega ekki beðið eftir þessari framkvæmd — heldur líka af því að Sundabraut er ný útgöngu- og flóttaleið úr höfuðborginni. Guð hjálpi okkur ef það kæmi til hamfara í höfuðborginni. Það eru nú einhverjir sérfræðingar að tala um það núna að við höfum verið of hrokafull í garð náttúrunnar undanfarin ár og áratugi og ég segi bara: Þetta er brýnt verkefni sem við þurfum að ráðast í sem fyrst og mér hugnast vel þessar tillögur í þingsályktunartillögu hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur. Ég styð hana heils hugar og ég vona að hún hljóti brautargengi í þinginu.