154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

tímabundið innra eftirlit á landamærum og PNR-samningar um farþegalista í flugvélum.

[15:06]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður spyr hvort dómsmálaráðherra sé sáttur við það ástand sem ríkt hefur. Ég tel að ráðherra hafi ítrekað komið þeirri skoðun sinni á framfæri í fjölmiðlum núna síðustu mánuði, ég hef haft áhyggjur af þeirri fjölgun sem orðið hefur hér á fólki sem leitar að vernd hér á landi og ég hef haft áhyggjur af því að á síðustu tveimur árum hafa samtals 9.000 einstaklingar sótt um vernd. Það er einfaldlega of mikið að því ég tel, of mikill fjöldi. Þetta samsvarar fjölda þeirra sem býr í öllu Sveitarfélaginu Árborg til samans. Það er rétt að örugglega síðustu tíu ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með ráðuneyti dómsmála og hefur gert það vel og forverar mínir í starfi hafa gert það mjög vel. Hins vegar er það svo að þingið hefur hafnað öllum breytingum sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram, ekki bara einu sinni, ekki bara tvisvar og ekki þrisvar, heldur að ég tel fimm sinnum. Fimm sinnum, hv. þingheimur, hefur þingið komið í veg fyrir að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi getað gert nauðsynlegar breytingar á útlendingalöggjöfinni og það er miður. Það hefur ekkert með valdagræðgi Sjálfstæðisflokksins að gera eins og hv. þingmaður nefnir hér, bara alls ekki, heldur hafa forverar mínir í starfi, þeir ráðherrar sem hafa setið í þessu ráðuneyti fyrir Sjálfstæðisflokkinn, tekið það af mikilli ábyrgð að stýra því ráðuneyti og það geri ég sömuleiðis.