154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

öryggis- og varnarmál í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

[10:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja að það er engum vafa undirorpið að Bandaríkin njóta góðs af veru sinni í NATO, tvíhliða samstarfi yfir Atlantshafið, ef við getum orðað það þannig. Við ættum kannski frekar að segja að þetta fjölþjóðasamstarf sem felst í NATO-aðildinni gagnist ekki bara Evrópuþjóðunum heldur Bandaríkjunum líka. Það er algerlega ótvírætt. Við skulum trúa því að menn sjái það nú jafn vel í dag og frá öndverðu.

Mig langar að nefna það hér að við erum auðvitað þegar búin að auka áherslu á varnarmálin. Við höfum eflt samstarfið við Bandaríkin á grundvelli tvíhliða samningsins og þá hafa verið töluvert miklar fjárfestingar á varnarsvæðinu í samræmi við mat á þörf fyrir uppbyggingu og endurnýjun búnaðar og annað þess háttar. Við höfum einnig tekið virkan þátt í Norðurlandasamstarfi og í JEF-samstarfinu, þannig að þetta hefur allt verið undanfarin ár. (Forseti hringir.) Varðandi aðild Úkraínu að NATO þá höfum við stutt það ferli og ég hef verið mjög afdráttarlaus í öllum yfirlýsingum varðandi það (Forseti hringir.) á þeim fundum sem ég hef sótt.