154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[12:10]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir andsvarið. Ég ætla bara að byrja hér á að þakka þingmanninum sömuleiðis fyrir gott samstarf og ég held að við séum nú öll, alla vega flest, sammála um að þetta verkefni er þverpólitískt. Það er í okkar höndum að reyna að taka utan um bæði fólk og fyrirtæki sem hafa þurft að þola þetta hvað mest og fundið þetta á eigin skinni. Ég bara tek undir það, eins og við höfum líka rætt, að þetta tiltekna frumvarp leysir ekki allan vanda en þetta mál sýnir að okkur er alvara í verki og við erum að reyna að grípa ákveðna aðila — alls ekki alla — og ég tek undir það með hv. þingmanni.

Það hefur auðvitað ýmislegt verið gert. Við erum með launastuðning og það hefur verið komið til móts við fyrirtæki með frestun opinberra gjalda o.s.frv. Auðvitað kemur það til nefndarinnar og ég treysti því að við munum áfram ræða þessi mál ítarlega eftir því hvernig aðstæður þróast í Grindavík og í raun á Reykjanesskaga öllum. Mér finnst það bara eðlilegt og hef svo sem sagt það sjálfur að það er okkar verkefni sem hér erum á Alþingi að vera á vaktinni og mér finnst við hafa sinnt því vel. Við höfum verið á vaktinni fyrir íbúa og fyrirtæki í Grindavík og munum að sjálfsögðu halda því áfram.

Ég held að við séum með gott mál hér. Við heyrðum það frá atvinnuteymi Grindavíkurbæjar, sem m.a. kom til nefndarinnar og sendi frá sér umsögn, að það er jákvæðni í garð þessa tiltekna frumvarps. Það hefur komið á daginn að það eru aðrir aðilar, önnur fyrirtæki sem eru einhvern veginn — og það er alveg örugglega þannig að það eru einhverjir aðilar sem falla á milli skips og bryggju sem þarf svo síðar taka í fangið að einhverju leyti. Þá mun ekki standa á okkur og við munum taka tillit til þess.