154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið og ég heyri það, eins og ég svo sem þóttist vita áður en ég steig hér í þetta púlt, að við deilum þessum áhyggjum og ég held að það geri það allir. Jú, vissulega er hægt að fara í einhvers konar skattalegar aðgerðir til að reyna að draga úr peningamagni í umferð. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um fjárlög fyrir árið 2024 er setning, ef ég man rétt, sem er á þá leið að það komi til greina að skoða að fresta eða færa til framkvæmdir á árinu 2024 ef þær aðgerðir sem farið er í í Grindavík verða mjög kostnaðarsamar og dýrar fyrir ríkissjóð. Mig langaði aðeins að fá hugleiðingar hv. þingmanns um það. Ég er ekki með neinar sérstakar framkvæmdir í huga. Þegar ég er spurður er spurningin alltaf: Hvaða framkvæmdir? En nú er ég bara að hugsa um þetta úr 30.000 fetunum, hvernig hv. þingmanni líst á þá hugmynd að ríkið dragi kannski aðeins úr annars staðar meðan við erum að kljást við þetta ástand á Suðurnesjum.