154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[20:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál sem við erum að afgreiða hér er mjög stórt mál og það skal engan undra enda stöndum við frammi fyrir einni stærstu áskorun lýðveldissögunnar sem samfélag. Þetta er mikilvægt mál því að það snýst um að gefa Grindvíkingum, sem hafa verið í gríðarlega erfiðri stöðu, val um að geta hafið nýtt líf á nýjum stað. Með þessu máli erum við að taka utan um íbúa Grindavíkur. Þar með er ég ekki að segja að þeim málum sé lokið. Þau mál verða áfram forgangsmál stjórnvalda, þar á meðal hvað varðar atvinnulífið í Grindavík, hvað varðar það að tryggja velsæld allra íbúa í Grindavík, sem og í raun og veru að tryggja áframhaldandi öryggi fyrir þau sem hafa búið við þessa óvissu svo lengi. Þannig að þetta er gríðarlega mikilvægt mál sem við erum að afgreiða hér í kvöld og mig langar að nota tækifærið hér til að þakka fyrir það hvað við höfum átt gott samstarf um þessi málefni. Það ber að fagna því þegar við erum með slíka áskorun fyrir framan okkur að Alþingi Íslendinga geti tekið höndum saman.