154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[21:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Einhvern veginn verður þessi reikningurinn borgaður þegar allt kemur til alls. Hæstv. fjármálaráðherra hefur í vikunni einmitt fjallað um það hvernig skattheimta myndi lenda á heimilum og fyrirtækjum o.s.frv. en stýrivextirnir gera það líka og gera það rauninni á mjög ójafnan hátt. Skilvirkari leiðir til að slá á þensluna á einhvern hátt eru sértækar fjáröflunaraðgerðir. Það er ekki lántaka sem hefur þau áhrif að núlla út hið svokallaða aðhaldsstig ríkisfjármálanna sem fellur þá á Seðlabankann sem þarf að redda efnahagsstefnunni eins og Seðlabankinn er búinn að gera núna í ansi langan tíma. Þess vegna eru 9,25% stýrivextir, af því að ríkisstjórnin hefur ekki tekið ábyrgðarhlutverk sitt um hagstjórn, efnahagsstjórn alvarlega. (Forseti hringir.) Þannig að ég og við Píratar sitjum hjá við afgreiðslu þessa frumvarps.