154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

umræðan um opin landamæri.

[15:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Af flokksráðsfundi Vinstri grænna greinir Heimildin frá orðum hæstv. ráðherra, þar sem segir, með leyfi forseta:

„… þar sem upp eru að dragast öfga hægri skoðanir á móti skoðunum um opin landamæri.“

Þetta er mjög áhugaverð framsetning hjá hæstv. ráðherra þar sem í fyrsta lagi er öfgahægri mjög áhugavert þar sem hægri er aðallega kennt við frjálslyndi og öfgahægri er þá einhvern veginn öfgafrjálslyndi, sem er mjög merkilegt fyrirbæri, sérstaklega í þessu samhengi þar sem þessi opnu landamæri eða lokuðu landamæri eða hvað sem fólk vill er kannski meiri fasismi frekar en einhver frjálslyndisstefna.

Hitt sem hæstv. ráðherra segir og talar um eru sem sagt þessar skoðanir um opin landamæri. Ég veit ekki til þess að þær séu neins staðar, satt best að segja, hvergi í rauninni hjá stjórnmálaöflum eða í rauninni skoðunum almennings þegar allt kemur til alls. En samt er alltaf verið að segja að hinir og þessir séu með skoðanir um opin landamæri. Þessir vilja opin landamæri, það er vont. Bíddu, þegar ég skoða það síðan nánar þá finn ég ekki þær skoðanir, leita og leita en ég sé ekki þá sem segjast vilja opin landamæri; enginn stjórnmálaflokkur hérna, ekki neinn.

Er staðan þá þannig að þessir fasistar — ekki öfgahægri, það er einhver öfgafrjálslyndisstefna — eru þau bara að segja að það séu stjórnmálaflokkar hér með skoðanir um opin landamæri en eru þau bara að ljúga því þegar allt kemur til alls? Og ef þau eru að ljúga því, af hverju erum við þá að taka undir það á þennan hátt? Því að mér finnst það mjög alvarlegt þegar við gefum svona strámönnum í rauninni vettvanginn (Forseti hringir.) og högum umræðunni á þann hátt í kjölfarið að þetta snúist um opin landamæri eða ekki (Forseti hringir.) þegar enginn er með þá skoðun að það eigi að vera opin landamæri.