154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[18:16]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og ég tek nú undir sumt af því sem þar kom fram, sérstaklega varðandi umræðuna á hinum Norðurlöndunum. Ég hef einmitt átt svona samtöl, við sem sátum í allsherjar- og menntamálanefnd á síðasta ári áttum einmitt svona samtöl við kollega okkar, bæði í Noregi og Danmörku. Ég var að vona að einmitt á síðasta þingi þá myndum við ná utan um málaflokkinn. Við myndum ekki vera í þessari skautun sem hv. þingmaður lýsir svo glöggt. En mér heyrist vera sleginn annar tónn hérna í þessum sal í dag og það er fagnaðarefni. Mér heyrist fólk tilbúið í samtalið og mér heyrist við geta talað af meira raunsæi núna en áður og ég bara fagna því. Þannig að ég spyr hv. þingmann: Mun þingflokkur Viðreisnar styðja þetta frumvarp sem við fjöllum hér um?