154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Yfirskrift menntastefnu Reykjanesbæjar er: Með opnum hug og gleði í hjarta. Menntastefnan byggist á þremur leiðarljósum sem eiga að einkenna allt starf með börnum og ungmennum í bænum. Í skólum Reykjanesbæjar eru 30% barna af erlendum uppruna. Eitt leiðarljósanna í menntastefnunni er: Kraftur fjölbreytileikans. Þar er minnst á þau sígildu sannindi að ein af grunnþörfum hverrar manneskju sé að tilheyra og að fagfólk þurfi að koma auga á þann auð sem býr í hverju barni, reynslu þess, þekkingu og áhuga, á sama tíma og það ígrundar á gagnrýninn hátt starfshætti sína og viðhorf.

Þetta eru leiðarljós sem fleiri mættu tileinka sér, ekki síst alþingismenn, einkum í umræðunni um fólk sem hér býr og starfar eða leitar eftir vernd og er af erlendum uppruna. Sum orð eru notuð oftar en önnur í þeirri umræðu. Skilvirkni og raunsæi eru þar ofarlega á lista og stundum fær mannúð að fylgja með. En hvaða merkingu hafa þessi orð í raun? Það fer nefnilega eftir því hver talar. Orðið skilvirkni er stundum notað um að afgreiða umsóknir um alþjóðlega vernd hraðar en nú er gert og það getur líka verið mannúðlegt. Skilvirkni merkir hjá öðrum ómannúðlegar aðgerðir til að fækka umsóknum um vernd. Hvað með raunsæi, er það að horfa raunsætt á innviði okkar og sjá að þá þurfi að bæta til að geta tekið á móti fólki sómasamlega eða á raunsæið að gefa okkur leyfi til að ýta mannúðinni til hliðar?

Það er afar mikilvægt, forseti, að stjórnmálamenn gæti orða sinna í viðkvæmum málum. Annars er voðinn vís.