154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

myndatökur í þingsal.

[14:10]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er kominn hingað í og með til að bera af mér sakir. Það var í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að ég og kollegi minn, hv. þm. Ásmundur Friðriksson, hefðum verið að taka myndir í þingsal. Það er ekki rétt. Það eina sem ég hef fundið um slíkt er í bókinni Háttvirtur þingmaður. Þar stendur: „Ekki má taka myndir í þingsal.“ Það stendur ekki í þingsköpum né annars staðar, ekki mér vitanlega. Í fyrsta lagi hvað mig varðar þá stóð ég ekki í þingsalnum. Ég stóð fyrir utan þingsalinn og það sést á ljósmyndinni sem ég tók enda er líka mynd af myndavélinni þarna í horninu fyrir ofan, en ég var ekki inni í þingsalnum ef menn hafa áhuga á að skoða þessar myndir. Ég tel að þetta hafi ekki verið brot þar sem fundarstjóri hafði slitið þingfundi þegar ég tók myndina, og það er þá líka mikilvægt að standa í þingsalnum. Ég tel líka að þetta hafi verið mikilvæg heimild um það brot sem átti sér stað sem var stórfellt, það var brot gegn friðhelgi Alþingis og brot á 100. gr. almennra hegningarlaga. Það eru þungar refsingar við þessu broti, fangelsi ekki skemur en eitt ár og allt að ævilangt fangelsi ef sakir eru miklar. Ég tel því að þessi frétt hafi ekki átt við nein rök að styðjast og hvorki ég né hv. þm. Ásmundur Friðriksson höfum á nokkurn hátt brotið reglur þingsins með þessum myndatökum. (Forseti hringir.) Ég hef hins vegar hrósað hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir myndatökuna og fyrir það líka að hafa tekið myndband af þessu alvarlega broti gegn friðhelgi Alþingis sem er mikilvægt að sé virt.