154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

staða launafólks á Íslandi.

[10:54]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Nýverið kynnti Varða – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins niðurstöður sínar um stöðu launafólks á Íslandi. Um er að ræða efnismikla spurningakönnun sem lögð er fyrir félagsfólk ASÍ og BSRB árlega og fjallar um efnahagslega, félagslega og andlega stöðu þeirra. Niðurstöður könnunarinnar eru sláandi þrátt fyrir að vera mjög fyrirsjáanlegar; 40% launafólks á erfitt með að ná endum saman, forseti, 40%. Um 60% einhleypra mæðra geta ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum og helmingur leigjenda telur húsnæðiskostnað vera of þunga byrði.

Þetta er náttúrlega hræðileg staða, forseti, en fyrirsjáanleg vegna þess að kannanir og gögn hafa sýnt fram á þessa þróun í gegnum árin. Við höfum lengi vitað að barnabótakerfið er meingallað og nýtist ekki raunverulega sem stuðningur við barnafjölskyldur. Staða leigjenda hefur allt of lengi verið óörugg og leiguverði leyft að hækka stjórnlaust þrátt fyrir að húsnæði sé grunnþörf okkar allra og ein af þeim þörfum sem stjórnvöld eiga að tryggja. Öll kerfi hins opinbera refsa fólki fyrir að vera einstæðingar, hvað þá einstæðir foreldrar. Slíkt kemur auðvitað niður á fjárhag og líkamlegri og andlegri heilsu foreldra og barna eins og sést glögglega í þessari könnun.

Forseti. Ríkisstjórnin hefur nú setið í rúm sex ár og í raun hefur Sjálfstæðisflokkurinn haft ráðuneyti fjármála í mun lengri tíma heldur en það, þannig að þessar niðurstöður sýna hreinlega afrakstur vinnu þessarar ríkisstjórnar. Hvað á fólki að finnast um það að ráðherra hafi leyft þessari þróun að raungerast? Annaðhvort er þessari ríkisstjórn alveg sama um stöðu launafólks og fólks í landinu eða er bara algjörlega vanhæf til þess að tryggja velferð fólks í landinu. Hvort er það?