154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

Samkeppni og neytendavernd.

[11:45]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að hefja máls á þessari umræðu. Eins og komið hefur fram í máli annarra þingmanna hér í dag eru eftirlitsstofnanir gríðarlega mikilvægar í landi þar sem fákeppni og einokun á markaði er reglan frekar en undantekningin. Fyrir nokkrum mánuðum fengu landsmenn að sjá það svart á hvítu þegar Samkeppniseftirlitið upplýsti um ólögmætt samráð stóru skipafélaganna Eimskips og Samskipa. Samkvæmt nýju frummati kostaði þetta samráð skipafélaganna íslenskt samfélag 62 milljarða kr.

Forseti. Það eru gríðarlegir peningar fyrir íslenskt samfélag. Talið er að bara kostnaður fyrir neytendur vegna hækkunar á gjaldskrám skipafélaganna hafi verið 26 milljarðar. Þessar gígantísku tölur varpa ljósi á það hversu dýrkeypt samkeppnisbrot geta reynst íslensku samfélagi og hversu mikilvægt er að hafa sterkt og virkt samkeppniseftirlit hér á landi. Það virðast þó ekki allir sammála um mikilvægi þess að styrkja Samkeppniseftirlitið en þrátt fyrir stóraukin umsvif efnahagslífsins síðustu ár, sem þýðir fleiri verkefni fyrir eftirlitið, er fjöldi ársverka hjá stofnuninni nánast sá sami og fyrir áratug. Eins og staðan er núna á eftirlitið erfitt með að sinna lögbundnum skyldum sínum og hvað þá að elta ábendingar viðskiptavina um samkeppnisbrot en rannsóknin á samráði skipafélaganna hófst til að mynda eftir slíka ábendingu. Alls stóð þessi umfangsmikla rannsókn yfir í átta ár.

Forseti. Til þess að Samkeppniseftirlitið nái að sinna skyldum sínum og standa vörð um íslenska neytendur þarf núverandi ríkisstjórn að hætta að fjársvelta stofnunina. Auka þarf fjármagn til eftirlitsins og fjölga starfsfólki þess strax. Helst í gær.