154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Þegar talað er um fíkn í samfélagslegri umræðu er oftast verið að tala um áfengis- og/eða lyfjafíkn en önnur fíkn sem er einnig mjög alvarleg, eins og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson talaði um hérna áðan, er spilafíkn. Mikilvægt er að við aukum skimun fyrir spilafíkn en spilafíkn gleymist oft. Fíknin hefur ekki einungis neikvæð áhrif á einstaklinginn heldur einnig á fjölskyldu einstaklingsins. Forvarnir fyrir fjárhættuspil eru af mjög skornum skammti en mikilvægt er að ná til ungs fólks.

Flestir sem eiga við spilafíkn að stríða spila í spilakössum sem er það spil sem hefur hvað mest forspárgildi um hvort einstaklingur sé með spilavanda en hér á landi eru um 900 spilakassar. Það er mikilvægt að takmarka þann skaða sem fólk sem spilar í spilakössum verður fyrir. Það er mjög mikilvægt að taka upp það sem heitir spilakort eða rafræn skráning svo að fólk geti sett sér mörk en einnig er mikilvægt að þeir sem reka spilakassa setji líka mörk á hversu miklu er hægt að eyða hverju sinni. Með spilakorti getur fólk sett sér mörk tengd tíma og upphæðum, fólk getur lokað á sig og fleira. Það sem er mikilvægast í þessu samhengi er að þetta er skaðaminnkandi. Þetta hefur verið gert á Norðurlöndunum við góðan árangur sem er sá að fólk eyðir minni pening en áður í spilakassa. Það þarf að leggja mikið púður í þetta og útfæra þetta vel þar sem þetta er mjög mikilvægt fyrir heilsu og velferð þeirra sem eiga við spilafíkn. Reynsla af spilakortum erlendis sýnir að fólk vanmetur oft hversu miklu það tapar og ofmetur hversu mikið það vinnur. Það er mikilvægt að setja upp regluverk sem felur í sér að það er takmarkað hversu miklum peningum er hægt að tapa í peningaspilum. Það er mikilvægt að spilakortin verði að raunveruleika hér á landi svo að við getum aðstoðað þann hóp sem glímir við spilafíkn alla daga. Það er skaðaminnkandi og nauðsynlegt svar við spilafíkn.