154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Áhrif aukins peningamagns í umferð.

[15:21]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir fyrirspurnina sem ég er ekki alveg viss samt hver var. Ég tel nú ekki að þessi gjörningur eigi að skoðast í ljósi ákvarðana ríkisstjórnar vegna kjarasamninga og tel ekki að hann hafi nein áhrif á þær ákvarðanir enda er fjárhagur Landsbankans ekki sami og fjárhagur ríkisins. Í þessu máli finnst mér bara mikilvægt að ítreka það sem ég hef áður sagt hér í svari við hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur, að með þessum gjörningi er Landsbankinn að fara inn á nýtt svið, þ.e. tryggingastarfsemi. Það myndi ég telja vera meiri háttar ákvörðun og þá er eðlilegt að hún sé borin undir Bankasýsluna eins og kveðið er á um í lögum. Við erum með ákveðið lagaumhverfi um þessi mál. Það er ekki er gert ráð fyrir að ráðherra sé endilega að horfa til daglegra ákvarðana í rekstri eða viðskiptum viðkomandi banka en Bankasýslan fer með eignarhlutinn. Í ljósi þess ef þetta telst meiri háttar ákvörðun, sem ég myndi telja að væri, þá þarf að bera það undir Bankasýslu ríkisins. Það er þannig sem þetta mál stendur og ég legg á það áherslu að í svona máli, sem er stórt, er mjög mikilvægt að lögum og reglum sé fylgt til hins ýtrasta.