154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[15:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Í kjölfar Íslandsbankasölunnar hinnar síðari gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu, nánar tiltekið þann 19. apríl 2022. Þar sagði, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og innleitt verði nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. […] Frumvarp þessa efnis verður lagt fyrir Alþingi svo fljótt sem auðið er.“

Það bólar enn þá ekkert á þessu frumvarpi. Þar segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin leggur hér eftir sem hingað til áherslu á óbreytt eignarhald ríkisins á hlut sínum í Landsbankanum.“

Í gær sagði fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að stjórnvöld muni halda áfram að draga úr eignarhaldi ríkisins í fjármálakerfinu og nýta fjármuni sem liggja í slíkum rekstri í uppbyggingu innviða.“ — Og talar svo í framhaldinu um að einkavæða Landsbankann.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Var bara ekkert að marka þessa yfirlýsingu formanna stjórnarflokkanna árið 2022? Er það rétt að fjármálaráðherra sé bara að tala út frá sínum eigin hugðarefnum og í raun gegn ákvörðun formanna stjórnarflokkanna í þessum pistli sínum í gær? Yfirlýsingin fannst mér alveg skýr, að það stæði ekki til, en hér er verið að ræða um eitthvað allt annað. Og að lokum: Hvers vegna er ekki búið að leggja Bankasýsluna niður? Hvað stendur til ef hún er enn þá að fara með eignarhlut ríkisins, stofnun sem greinilega lætur ráðherra ekki vita af stórum ákvörðunum. Hún vissi alla vega af þessu í febrúar, hæstv. fjármálaráðherra. Ég skil ekki alveg hvað er í gangi hér.

Aðalatriðið er kannski þetta: Þessi yfirlýsing sem gefin var út af formönnum stjórnarflokkanna 2022, um hvað ætti að gera til að skapa aftur traust um sölu á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, er hún bara algerlega marklaust plagg? Hvers vegna er fjármálaráðherra að tala svona beint gegn yfirlýsingu formanna ríkisstjórnarflokkanna?