154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[20:02]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra og starfsfólki hans fyrir vandaða þingsályktunartillögu og góða greinargerð. Það er auðvitað alveg hárrétt sem ráðherra kom inn á og nefnt er í þingsályktunartillögunni að innrás Rússa er alvarlegasta öryggisógn við Evrópu frá seinni heimsstyrjöld og mjög mikilvægt að bregðast við. Árangur Úkraínumanna í þessu stríði skiptir okkur hér á Íslandi líka höfuðmáli því að við erum að ræða um atlögu Rússa að fullveldi þjóðar, friðhelgi landamæra og öryggi almennra borgara. Þess vegna er mjög ánægjulegt að Ísland hyggist samþykkja stefnu til fimm ára um öflugan stuðning við Úkraínu sem verði sambærilegur við stuðning hinna Norðurlandanna, sem eru að gera svipaða langtímastefnu í augnablikinu. Þess vegna finnst mér skipta máli að talað sé um að við ætlum að gera a.m.k. það sama. Við værum þá að feta sömu slóð og Bretar, sem riðu á vaðið, og svo Þjóðverjar og Frakkar og vonandi fleiri þjóðir á eftir, því að það er í fyrsta lagi mjög mikilvægt að skapa fyrirsjáanleika fyrir úkraínsku þjóðina. Það er líka mikilvægt að Evrópuþjóðir, og auðvitað sem flestar þjóðir, sendi skilaboð á mjög viðkvæmum tímum þar sem við horfum annars vegar upp á hættuna á að það sé að molna undan stuðningi einstakra þjóða í Evrópu þar sem harðvítug pólitísk barátta í Bandaríkjunum í aðdraganda forsetakosninga síðar á árinu er notuð beinlínis í þessari umræðu. Það má ekki gerast, herra forseti, enda er um að ræða, eins og ég sagði áðan og margir hafa sagt á undan mér, hugmyndafræðilega baráttu. Þetta snýst um að verja lýðræði, frelsi, mannréttindi og sjálfsákvörðunarrétt þjóða.

En þar sem við erum friðsöm og herlaus þjóð þá verður auðvitað aðstoð okkar með töluvert öðrum hætti heldur en margra bandalagsþjóða okkar sem sjá Úkraínumönnum fyrir vopnum og skotfærum. Í þingsályktunartillögunni er farið yfir þessa fimm þætti sem við munum einkum beita okkur fyrir: Öflugt tvíhliða samstarf og samskipti við stjórnvöld, þjóðþingið og stofnanir; virk þátttaka í alþjóðlegu starfi yfir höfuð; stuðningur til að tryggja öryggi borgaranna og verja innviði; mannúðarstarf þeim til handa, og síðan er það auðvitað viðhald grunnþjónustu og efnahagslegur stuðningur við Úkraínu meðan á stríðinu stendur og þegar því lýkur. Það skiptir þess vegna ekki litlu máli að við og fleiri þjóðir skulum vera að gefa fyrirheit um þolinmæði og langtímastuðning. Úkraínumenn hafa sjálfir lýst því yfir hvaða framtíð þeir vilja að bíði sín og við höfum tekið undir það. Þeir vilja vera hluti af lýðræðiskerfi Evrópu, hafa verið í viðræðum við Evrópusambandið og sóst eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu í fyllingu tímans. Vinna við að laga stjórnkerfið þar innan húss er á fullum snúningi til að mæta þeim skilyrðum sem hafa verið sett. Mér fannst líka gott að heyra á fundi sem við áttum með fulltrúum frá úkraínska þinginu í utanríkismálanefnd að þau eru alveg jarðbundin og gera sér grein fyrir því að það þarf þolinmæði og þetta þarf að gerast í réttri röð, þ.e. skilyrðislaus aðild að Atlantshafsbandalaginu við núverandi aðstæður er ekki eitthvað sem þau tala um og þau átta sig á að það bíður betri tíma, en sjálfsagt er að byrja að afla því stuðnings og fylgis.

Það er í sjálfu sér óþarfi að fjölyrða mikið meira um þetta. Flestir á undan mér hafa sagt svipaða hluti og farið jafnvel dýpra í hlutina. Ég get tekið undir með allflestum sem hér hafa talað. Að lokum er mjög dýrmætt að þessi órofa samstaða hafi verið, bæði í þinginu og meðal þjóðarinnar, eins og hæstv. ráðherra kom reyndar inn á, og jafnvel mælst meiri stuðningur hér heldur en víðast hvar annars staðar. Við þurfum að viðhalda honum og við þurfum auðvitað að tala fyrir áframhaldandi stuðningi alls staðar um álfuna, því að það er auðvitað fáum þjóðum mikilvægara en lítilli örþjóð eins og Íslandi að lýðræði sé virt og sjálfsákvörðunarréttur þjóða sé virtur. Við eigum og getum vissulega lagt ýmislegt af mörkum. Við erum náttúrlega sérstaklega berskjölduð þar sem við leggjum mikið af mörkum til varnarsamstarfs Atlantshafsbandalagsins en reiðum okkur þó mjög mikið á samtakamátt bandalagsþjóða, sem gefur okkur auðvitað öryggi.

Mér finnst þetta mikilvæg tillaga. Mér finnst ánægjulegt að hún skuli vera borin upp og ég veit að hún kemst hratt og örugglega í gegnum þingið. Mér finnst gott að heyra að hæstv. utanríkisráðherra vilji eiga gott samstarf við utanríkismálanefnd um tillöguna og lýsi að lokum yfir stuðningi Samfylkingarinnar við þessa tillögu.