154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[12:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Nokkur atriði hérna sem hafa komið fram í umræðunni sem ég held að sé ágætt að tæpa aðeins á. Byrjum á því sem kom fram núna síðast í andsvörum, að frumvarpið sé ekki gallalaust, eins og hv. þm. Óli Björn Kárason kemst að orði, fyrstur til að viðurkenna. Þá er dálítið skrýtið, af því að við vitum að þetta er gallað frumvarp og það eru rúmir tveir mánuðir eftir af þinginu, að það sé verið að klára það núna. Af hverju er þá ekki tíminn nýttur til þess að sníða af helstu galla áður en við klárum það? Mér finnst það rosalega skrýtið og svona frekar augljóst að ef við vitum af einhverju sem mætti gera betur að við gerum þá betur fyrst við höfum tíma til þess. Ég skil alveg að það er hægt að gera grófar áætlanir fyrst eða leiðbeiningar og gera þær síðan nákvæmari eftir því sem mál þróast en það er alveg umsvifamikið að fara með slíkar breytingar í gegnum þingið. Þá þeim mun frekar að nýta alla vega þann tíma sem við höfum á meðan málið er í meðförum þingsins, að senda það a.m.k. ekki frá okkur með galla sem við vitum af.

Á þeim nótum kannski finnst mér áhugavert að sjá, svona tilfinning sem ég hef fyrir þó nokkrum málum sem hafa komið fram á þessu þingi og síðasta þingi, að það hafa verið gerðar mjög miklar breytingar eftir 2. umræðu og jafnvel í 3. umræðu mála, svo miklar breytingar að þær kalla í rauninni á endurtekið umsagnarferli því að málið er einfaldlega bara nýtt, það er svo mikið breytt. Ég veit ekki hvort þetta sé bara ekki nógu vel unnið samráðsferli, sem á að minnka líkurnar á þessu, sem sé ekki að virka nægilega vel eða hvort það sé bara vísvitandi hjá stjórnvöldum að koma inn ákveðnum breytingum fram hjá umsagnarferli. Mér finnst erfitt að vita það í rauninni ekki. Mér finnst skrýtið þegar það koma svona miklar breytingar þar sem umsagnaraðilar bara lyfta upp rauða flagginu og segja: Bíddu, fyrirgefðu, þetta er ekki nógu gott. Við verðum að hafa ráðrúm til þess að skoða hvaða áhrif þetta hefur. Jafnvel sé ekkert tillit tekið til ábendinga um það hvaða slæmu áhrif breytingarnar, jafnvel þó að við séum með rúma tvo mánuði eftir af þinginu til að redda málum. Við þurfum að skoða þetta betur. Þetta er dæmi um ný vinnubrögð sem ég kannast ekki við og ég hef nú ekki verið það lengi á þingi, þá var þetta ekki svona, ekki svona augljóst alla vega á síðasta kjörtímabili og hvað þá þarsíðasta eða þarþarsíðasta þegar ég var varaþingmaður, ég hef verið að fylgjast með þessu dálítið síðan þá. Þess vegna höfum við lagt fram frávísunartillögu. Ég hef engar áhyggjur af því að málið fari ekki í gegnum þingið á þessu löggjafarþingi, en frávísunin er kannski hvatning til ríkisstjórnarflokkanna til að vinna málið betur, að þessar breytingar fái alvöruumsagnarferli. Það er alveg tími til að gera það enn þá þannig að það ætti ekki að vera nein fyrirstaða til að gera betur.

Almennt séð hefur aðeins verið fjallað hérna um fákeppni, og fæðuöryggi hefur komið inn í þessa umræðu líka, skiljanlega. En ég held að það sé dálítið nauðsynlegt að við skiljum það umhverfi sem við erum í, bæði hvað varðar einmitt fákeppnisumhverfið sem við erum með hérna á litla Íslandi og hvaða áhrif það hefur í rauninni á fæðuöryggi sem ákveðið þjóðaröryggismál. Nú framleiðum við alveg nægilega mikið af orku í formi fæðu til að framfleyta okkur. Það er bara tiltölulega einhæft, rosalega mikið af fiski t.d., og í rauninni alveg nóg af kjöti og ýmsu svoleiðis. En það er þegar allt kemur til alls háð innflutningi á þó nokkuð miklu af vörum, aðallega orku, í rauninni olíu og alls konar fæðu líka, fæðubótarkorni o.s.frv. Að lágmarki til að ná fæðuöryggi, alla vega á þann hátt að við værum með tiltölulega einhæfa fæðu, þá þyrftum við einfaldlega að leysa vandamálið varðandi innflutning á orku þannig að matvælaframleiðslan okkar væri drifin áfram af innlendum orkugjöfum af því að það er eina leiðin til að tryggja í raun fæðuöryggi. Ef verstu spár rætast og samskiptaleiðir verða úti og þess háttar, sem er tiltölulega ólíklegt, en allt í lagi, gefum okkur bara þá verstu sviðsmynd, þá þurfum við að geta keyrt áfram framleiðslutækin til að framleiða alla vega þau matvæli sem við getum framleitt í dag. Það er ekki bara fæðuöryggismál. Það er líka eitt helsta loftslagsmálið, að losa okkur við innflutning á olíu og notkun á olíu. Það er líka risastórt efnahagsmál. Við erum að tala um núna vel rúmlega 100 milljarða innflutning á olíu sem er í rauninni mínus, það er hagkerfismínus fyrir okkur að þurfa að kaupa inn þetta hráefni. Ef við gætum nýtt þessa 100 milljarða innan lands frekar, t.d. í uppbyggingu á einmitt innviðum til að tryggja fæðuöryggi, værum við miklu betur stödd heldur en að þurfa að ná inn olíu til að viðhalda núverandi stöðu hvað það varðar. Þannig að það er gríðarlega stórt efnahagsmál, loftslagsmál og þjóðaröryggismál að losa okkur við þörfina á því að flytja inn bensín og olíu. Við náum því aldrei fullkomlega, alla vega ekki í fyrirsjáanlegri framtíð, en alla vega í nægilega miklu magni til að það sé hægt að stunda veiðar eða gróðurhúsaræktun eða landbúnað og almennt séð að öðru leyti.

Efnahagslega eru landbúnaðarmálin mjög áhugaverð. Við erum einfaldlega í þeirri stöðu aftur hvað varðar smágert land við norðurskautsbauginn að hagræðing og þess háttar er ágætlega fallegt orð til að henda hérna inn í umræðuna og segja að við séum að gera hitt og þetta í hagræðingarskyni o.s.frv., en við erum mjög langt frá því í rauninni að vera samkeppnishæf með mjög margt hvað landbúnað varðar, einfaldlega vegna norðlægra aðstæðna sem slíkra og þess sem það býður upp á. Þá erum við með efnahagsaðgerðir eins og annaðhvort niðurgreiðslur eða tolla til að vega upp á móti þeim skorti á samkeppnishæfni okkar varðandi innflutt matvæli. Það er hægt að fara í ákveðna hagræðingu eða nýsköpun til að passa upp á að hægt sé að lágmarka þörfina á tollum og niðurgreiðslum til að reyna að vera með sem opnasta og besta markaðinn upp á samkeppni að gera en það geta önnur lönd gert líka þannig að það kemur í rauninni út á núlli, kemur jafnvel verr út fyrir okkur þegar allt kemur til alls.

Ég hef hins vegar trú á því að á næstu árum verði íslenskur landbúnaður í rauninni enn ákjósanlegri vara úti um allan heim þegar við náum að koma upp betri tækninýjungum, t.d. eins og með kjötrækt, sem ég hef oft minnst á, sem mun koma í staðinn fyrir ákveðna verksmiðjuframleiðslu á dýrum, sem er eitthvað sem við þurfum nauðsynlega að losna við. Það er gríðarlega mikið af ja, sýklalyfjum og ýmislegt svoleiðis sem er notað í þess háttar framleiðslu. Hún er bara mjög slæm fyrir umhverfi og heilsu þannig að þegar við náum þeim árangri tæknilega þá held ég að það verði samt enn þá mjög mikil eftirspurn eftir lífrænum, náttúrulegum landbúnaðarafurðum sem við getum hæglega boðið upp á hérna frá Íslandi. Ég sé bara fram á í rauninni arðbærari grein eftir því sem tækninni vindur fram.

Að lokum vildi ég fara aðeins inn á fákeppnismarkaðinn sem við búum við hérna. Það er ekki bara landbúnaðurinn sem býr við þann akkillesarhæl, það er bara landið eins og það leggur sig nokkurn veginn. Ég held að við höfum farið rangar leiðir til þess að tækla fákeppnina. Hv. þm. Óli Björn Kárason kom hérna inn á áðan að stundum leiði það nú til verðstríðs sem þýði lækkandi verð til neytenda o.s.frv., en það verðstríð er alltaf tímabundið og er stríð í áttina að einokun frekar en meiri samkeppni þegar allt kemur til alls og hefur leitt til þess í rauninni að við séum með ákveðinn — við erum með skagfirska efnahagssvæðið t.d. og það er svona landskipting markaða þar sem ákveðin fyrirtæki fá að vera en önnur ekki. Við könnumst við bensínið, Olís og Esso eins og það var í gamla daga, það er kannski orðið aðeins öðruvísi núna en samt, Eimskip og Samskip, hvernig það var, skipta sér milli Evrópu og Norður-Ameríku og þess háttar. Fákeppnin býr til aðstæður fyrir einokun þannig að þó að það séu fá fyrirtæki í gangi er samt hvort fyrirtækið um sig fyrir sig í rauninni með einokun á sínu svæði, hvernig sem það svæði er skilgreint. Ef eitthvað er þá hefur sem betur fer internetið brotið margt af því dálítið upp. En það eru enn þá miklir einokunarmöguleikar á þeim svæðum þar sem er ekki hægt að glíma við stafræn samskipti sem brjóta niður þá veggi. Það þarf að sigla á milli landa. Það þarf — ja, það þarf ekki verslun, það eru komnar verslanir sem senda heim o.s.frv., það kostar alveg ágætlega mikið líka. En sem sagt leiðirnar sem við höfum farið í að mynda einhvers konar — ja, Mjólkursamsalan eins og hún var gerð var kannski nauðsynleg á sínum tíma en ætti ekki að vera það lengur, það ætti ekki að vera þörf lengur á Íslandspósti eins og hann hefur verið og ýmislegt svoleiðis. Þarna held ég að við þurfum að stoppa aðeins og hugsa hvernig við getum kortlagt upp á nýtt, af því að aðstæður hafa breyst svo mikið á undanförnum áratugum án þess að við höfum hugsað um það hvernig við getum gert hlutina öðruvísi. Ég held að við reynum frekar að plástra það sem áður var búið til en það er kannski orðið það úrelt að það mun aldrei ganga nægilega vel.