154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[16:51]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Þegar ég kom í morgun til starfa á þinginu þá bjóst ég við að það væri hér gleði og fögnuður meðal stjórnarliða yfir nýju ríkisstjórninni sinni. Því var bara ekki að heilsa. Það var þreyta og depurð yfir stjórnarliðum. Ég var nokkuð hissa. Ég hélt að það væri jafnvel eitthvað til tilbreytingar á borðum, einhver gleði væri, en það var alls ekki. Jú, vissulega örlaði á gleði hjá nýjum hæstv. matvælaráðherra og ég óska henni til hamingju með starfið. Ég treysti því, og það eru nokkuð öruggt, að hún verði betur í starfi en forveri hennar. Það er kannski ekki flókið eða erfitt. En það skýrðist hér í umræðunni hvers vegna þessi depurð og þreyta var; vegna þess að stjórnarliðar tala í sitthvora áttina. Hér talaði formaður Vinstri grænna um inngildingu og að hér væri að koma stefna í útlendingamálum sem væri bara í samræmi við kjarna flokksins. En hæstv. forsætisráðherra talaði með allt öðrum hætti, hér væri verið að færa reglur í átt við það sem gerðist á Norðurlöndunum.

Við erum hér með ríkisstjórn, ekki nýja heldur sama grautinn í sömu skálinni. Það er aðeins búið að hræra í henni, það hefur eitthvað slest upp úr henni og annað fyrir tilviljun úr Vinstri grænum slest í hana. Flestir landsmenn og jafnvel innvígðir Sjálfstæðismenn sjá það að við þessar hræringar í skálinni, þessum gamla grauti, þá hefur hann ekki skánað. Hann er kominn yfir síðasta söludag. Það kom svo skýrt fram í umræðunni hér í dag. Hann er nánast að verða orðinn óhæfur til neyslu fyrir þá sjálfa, enda sér maður hér á sætaskipaninni að þeir haldast varla hér inni við hliðina á hver öðrum.

En við Íslendingar furðum okkur stundum á því og brosum svolítið að hlutskipti vinaþjóðar okkar í vestri að þurfa að velja á milli tveggja aldinna og sumir vilja segja óhæfra stjórnmálamanna. Það blasir nú eiginlega við. En í stað þess að við séum hér að brosa að vinaþjóðinni ættum við kannski að líta á okkar eigið hlutskipti, líta í eigin barm. Við blasir verklaus formaður Framsóknarflokksins sem skilur eftir húsnæðismálin í sætum graut. Hann er að fá upphefð, hann er að færast í fjármálaráðuneytið. Á almenningur eitthvað að fagna því sérstaklega? Eiga Grindvíkingar eitthvað að fagna því? Ég get ekki séð það. Við blasir fyrrverandi hæstv. matvælaráðherra sem gerði nú ekki margt í sínu fyrra starfi nema þá að þjóna stórútgerðinni þau ár sem hún sat í matvælaráðuneytinu og fór lítið ef nokkuð eftir stefnu eigin flokks. Hún flúði eins og fætur toguðu í nýtt ráðuneyti, innviðaráðuneyti, undan vantrauststillögu í stað þess að standa hér keik reikningsskil gjörða sinna. Á almenningur eitthvað að fagna því, frú forseti? Er það eitthvað glæsilegt? Við blasir að vafasamasti og umdeildasti stjórnmálamaður landsins er orðinn yfirmaður stjórnsýslunnar í landinu. Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var gerð um það að efla traust á stjórnmálunum og stjórnsýslunni í landinu. Hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson var á flótta úr fjármálaráðuneytinu og er nú að fara í þessa upphefð. Er það eitthvert fagnaðarefni fyrir þjóðina? Mun það auka traust á fjármálamarkaðnum hér á Íslandi? Það held ég alls ekki. Það er augljóst að svo er bara alls ekki. Þetta er bara eins og hver annar lélegur brandari að flokkur sem segist vera róttækur umbótaflokkur skuli setja hér hæstv. forsætisráðherra og hann sitji í embættisskjóli þess flokks. Það er alveg ótrúlegt, frú forseti.

Ef einhverjum þykir ég vera of harðorður í garð þessarar ríkisstjórnar og sérstaklega gagnvart hæstv. forsætisráðherra þá verður hann bara að horfast í augu við það að það hefur varla verið seld skrúfa hjá hinu opinbera eða gerður samningur um skúringar eða hvað þá annað að þá er nánast allt kerfið komið af stað í að rannsaka það. Helstu eftirlitsstofnanir ríkisins eru nú komnar í skýrslugerðir um verkin. Þá nægir að nefna hér Lindarhvol, Íslandsbanka, Borgun og fleira og fleira. Þannig að það sem er að gerast, að hæstv. forsætisráðherra sé hér í skjóli róttæks umbótaflokks, er hryllilegur brandari, svolítið á kostnað þjóðarinnar.

En það sem er kannski alvarlegast við þetta ástand, að við séum að senda þessi skilaboð út í samfélagið, að ríkisstjórnin sé að senda þessi skilaboð út í samfélagið, er það sem Hallgrímur Pétursson orti hér um fyrir nokkur hundruð árum: „Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það.“

Það er nefnilega svo að þetta eru ekki góð skilaboð út í samfélagið sem við erum að senda hér, æðstu ráðamenn þjóðarinnar, að þeir þurfi ekki að sæta ábyrgð. Þeir geta hér verið með hvert málið umdeildara á eftir öðru, og hvað gerist? Jú, þeir jafnvel færast ofar í metorðastigann. Þetta ástand er óþolandi.

Ég vil bara ítreka það sem ég sagði hér: Þessi ríkisstjórn er komin yfir síðasta söludag og það er komið að kosningum þannig að þjóðin fái að gera upp hug sinn.