154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

Störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að ræða húsnæðismarkaðinn enn einu sinni. Fasteignamarkaðurinn er farinn að hitna allverulega. Það sýna tölur frá febrúar og mars þar sem fleiri íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni hafa verið að seljast á yfirverði. Á sama tíma hefur byggingarframkvæmdum fækkað og samdráttur blasir við í byggingu húsnæðis. Sú staðreynd blasir samt sem áður við okkur að við höfum verið að byggja meira á síðastliðnum árum, svona í sögulegu samhengi, en það hefur allt of harkalega verið tekið í handbremsuna á Seðlabankanum. Á þetta hef ég bent. Þrátt fyrir þessa miklu uppbyggingu höfum við ekki náð að haldast í hendur við þá miklu fólksfjölgun sem verið hefur á undanförnum árum. Þvert á það sem við þurfum nú mun vöntun á húsnæði einungis auka þrýsting til verðhækkunar á húsnæði og leigu sem mun hafa áhrif á verðbólgu. Þetta erum við farin að sjá í dag. Þetta er staðan þrátt fyrir miklar og góðar aðgerðir á hlið hins opinbera. Þar má nefna að alls 2.643 nýjar leiguíbúðir eru komnar í notkun af þeim 3.486 íbúðum sem fengið hafa stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum á síðustu átta árum. Langflestar íbúðanna, eða 2.227, eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafa 806 íbúðir verið fjármagnaðar í hlutdeildarlánakerfinu, sem er nýtt kerfi og er leið fólks til að komast inn á fasteignamarkaðinn sem á ekki eða á erfitt með að safna fyrir útborgun en getur hins vegar greitt mánaðarlegar afborganir. Nú þarf almenni markaðurinn að fá andrými. Hert lánþegaskilyrði, háir vextir Seðlabankans skipta hér sköpum. Það er erfiðara að komast inn á markaðinn og það er dýrara að framkvæma byggingar eigna. Þetta er eitraður kokteill í núverandi ástandi.

Svo verður að nefna þéttingarstefnu Samfylkingarinnar í Reykjavík á síðustu árum sem er að koma í bakið á íslensku samfélagi í dag. Á þetta hef ég bent lengi og seðlabankastjóri gerði það sjálfur á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar í síðustu viku.