15.1.2013

Afsal þingmennsku, nýr þingmaður tekur sæti

Á þingfundi 14. janúar 2013 las forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, upp bréf frá Guðfríði Lilju Grétarsdóttur frá 31. desember 2012 þar sem hún segir af sér þingmennsku. Forseti flutti Guðfríði Lilju kveðju og tilkynnti að Ólafur Þór Gunnarsson tæki fast sæti á Alþingi í hennar stað.

„Á gamlársdag 2012 barst mér svofellt bréf frá Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, 3. þingmanni Suðvesturkjördæmis:

„Reykjavík, 31. desember 2012.

Ég undirrituð, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, segi af mér þingmennsku frá og með 1. janúar 2013. Ég óska forseta og þingheimi öllum farsældar á nýju ári með þakklæti fyrir allt gott á liðnum árum.

Með vinsemd og virðingu.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.“

Samkvæmt þessu bréfi tók Ólafur Þór Gunnarsson, læknir, fast sæti á Alþingi frá og með 1. janúar 2013. Býð ég hann velkominn til starfa á Alþingi. Hann hefur alloft áður tekið sæti á Alþingi sem varamaður og er hagvanur í þessum sal. Ég vil við þetta tækifæri færa Guðfríði Lilju Grétarsdóttur bestu þakkir fyrir störf hennar á Alþingi. Sem forseti þakka ég henni sérstaklega gott samstarf meðan hún var formaður þingflokks og jafnframt þakka ég henni fyrir störf hennar sem formaður í nefndum þingsins. Hún lagði sig fram af einlægni við þingstörfin og þingið naut reynslu hennar og menntunar og þekkingar bæði í þingsalnum og á erlendum vettvangi þar sem hún var oft fulltrúi Alþingis.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var kjörin á þing vorið 2009 en hafði nokkrum sinnum áður tekið sæti sem varamaður. Þess utan var hún vel metin sem starfsmaður Alþingis um nokkurra ára skeið.

Ég veit að ég mæli fyrir munn allra alþingismanna þegar ég endurtek þakkir til Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur fyrir störf hennar á vettvangi Alþingis og óska henni og fjölskyldu hennar farsældar í þeim störfum sem hún mun taka sér fyrir hendur í framtíðinni.“

Tengill í upptöku af þingfundi.