36. fundur
atvinnuveganefndar á 144. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, fimmtudaginn 22. janúar 2015 kl. 09:00


Mættir:

Jón Gunnarsson (JónG) formaður, kl. 09:00
Lilja Rafney Magnúsdóttir (LRM) 1. varaformaður, kl. 09:00
Ásmundur Friðriksson (ÁsF), kl. 09:00
Björt Ólafsdóttir (BjÓ), kl. 09:00
Kristján L. Möller (KLM), kl. 09:00
Páll Jóhann Pálsson (PJP), kl. 09:00
Vilhjálmur Bjarnason (VilB), kl. 10:05
Willum Þór Þórsson (WÞÞ), kl. 10:05
Þórunn Egilsdóttir (ÞórE), kl. 09:00

Jón Þór Ólafsson og Þorsteinn Sæmundsson voru fjarverandi.
Þórunn Egilsdóttir vék af fundi kl. 10.

Nefndarritari: Selma Hafliðadóttir

Bókað:

1) Fundargerð. Kl. 09:00
Dagskrárliðnum var frestað.

2) 391. mál - Haf- og vatnarannsóknir Kl. 09:00
Nefndin hélt áfram umfjöllun sinni um málið og fékk á sinn fund Ínu Björg Hjálmarsdóttir frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Ingibjörgu G. Jónsdóttur, Pál Svavarsson og Sverri Daníel Halldórsson frá Hafrannsóknarstofnun, Ölmu Lísu Jóhannsdóttur frá SFR - stéttarfélagi og Eydísi Njarðardóttur, Friðþjóf Árnason og Þórólf Antonsson frá Veiðimálastofnun.

3) 392. mál - sameining Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar Kl. 09:00
Nefndin hélt áfram umfjöllun sinni um málið og fékk á sinn fund Ínu Björg Hjálmarsdóttir frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Ingibjörgu G. Jónsdóttur, Pál Svavarsson og Sverri Daníel Halldórsson frá Hafrannsóknarstofnun, Ölmu Lísu Jóhannsdóttur frá SFR - stéttarfélagi og Eydísi Njarðardóttur, Friðþjóf Árnason og Þórólf Antonsson frá Veiðimálastofnun.

4) Önnur mál. Kl. 09:40
Formaður kynnti breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar við 244. mál (tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, nr. 13/141). Formaður kvaðst leggja til að hún yrði send til umsagnar. Ákveðið var að ræða málið síðar á fundinum.

5) 74. mál - jarðalög Kl. 09:45
Nefndin hélt áfram umfjöllun sinni um málið og fékk á sinn fund Óskar Pál Óskarsson frá fjármálaráðuneyti (Jarðeignum ríkisins).

6) Önnur mál. Kl. 10:05
Fjallað var um 244. mál og gerði formaður grein fyrir breytingartillögu meiri hlutans við málið sem hann lagði til að yrði send til umsagnar. Í breytingartillögunni felst að eftirfarandi virkjunarkostir bætist við nýtingarflokk áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða: Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun, Skrokkölduvirkjun og Hagavatnsvirkjun.

Gerðar voru athugasemdir við málsmeðferðina og óskaði Lilja Rafney Magnúsdóttir eftir að bókað yrði:
„Ég mótmæli harðlega þeim óvönduðu vinnubrögðum að leggja munnlega fram breytingartillögu við málið. Í þeirri tillögu sem ráðherra lagði fyrir þingið og er til umfjöllunar í nefndinni er lagt til að Hvammsvirkjun færist í nýtingarflokk en með breytingartillögu meiri hlutans er lagt til að fjórir kostir bætist við þrátt fyrir að formleg breytingartillaga liggi ekki fyrir. Ég tel líka óásættanlegt að málið hafi ekki verið á dagskrá þessa fundar.“

Þá óskaði Kristján L. Möller eftir að bókað yrði:
„Ég mótmæli vinnubrögðum meiri hluta nefndarinnar við málsmeðferð í málinu.
Ég tel að þessi málsmeðferð sé ekki í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun og harma að ekki sé farið að þeim lögum.
Þessi málsmeðferð meirihluta nefndarinnar mun skapa harðar deilur og úlfúð um þetta mikilvæga mál og viðkvæma málaflokk, þar sem nauðsynlegt er að skapa sem mesta sátt og eyða deilumálum.
Auk þess vil ég vekja athygli á því að umrætt mál var ekki á dagskrá fundarins og er tekið upp í lokin undir liðnum önnur mál þar sem m.a þurfti að kalla inn þingmenn til viðbótar svo meiri hlutinn næði sínu fram.“

Fundi slitið kl. 10:25