74. fundur
fjárlaganefndar á 144. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, föstudaginn 5. júní 2015 kl. 08:00


Mættir:

Vigdís Hauksdóttir (VigH) formaður, kl. 08:00
Guðlaugur Þór Þórðarson (GÞÞ) 1. varaformaður, kl. 09:10
Oddný G. Harðardóttir (OH) 2. varaformaður, kl. 08:00
Anna María Elíasdóttir (AME) fyrir Ásmund Einar Daðason (ÁsmD), kl. 08:00
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (BjG), kl. 08:00
Brynhildur Pétursdóttir (BP), kl. 08:00
Haraldur Benediktsson (HarB), kl. 08:44
Valgerður Gunnarsdóttir (ValG), kl. 08:50

Karl Garðarsson var fjarverandi vegna starfa á vegum Alþingis erlendis, en tók þátt í afgreiðslu málsins, sbr. fundargerð. Jón Þór Ólafsson áheyrnarfulltrúi var fjarverandi.

Nefndarritari: Ólafur Elfar Sigurðsson

Bókað:

1) 206. mál - opinber fjármál Kl. 08:00
Frumvarp til laga um opinber fjármál var afgreitt til 2. umræðu með atkvæðum Vigdísar Hauksdóttur, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Haraldar Benediktssonar, Valgerðar Gunnarsdóttur og Önnu Maríu Elíasdóttur. Karl Garðarson, sem var við störf á vegum Alþingis erlendis en hefur tekið þátt í efnislegri umfjöllun nefndarinnar um málið, ritar undir nefndarálit meiri hlutans og stendur að breytingatillögum hans samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Afstaða hans var staðfest með símtali.

Minni hluti nefndarinnar, en hann skipa Oddný G. Harðardóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Brynhildur Pétursdóttir, mótmæltu því að málið yrði afgreitt úr nefndinni á þessum fundi og munu leggja fram nefndarálit minni hluta. Þær lögðu fram eftirfarandi bókun:
„Undirritaðar telja að fresta beri afgreiðslu frumvarps um opinber fjármál fram til haustsins 2015 og það verði þá lagt fram sem eitt af þremur fyrstu þingmálunum til umræðu og afgreiðslu á haustþingi.
Til að tryggja að svo megi verða þurfa formenn þingflokkanna að sammælast um að frumvarpið hljóti umfjöllun og afgreiðslu í þinginu á haustmánuðum, helst í september.
Við teljum ekki skynsamlegt að svo mikilvægt frumvarp sé afgreitt í flýti á lokadögum þingsins. Það ríkir almennur velvilji gagnvart frumvarpinu og góður möguleiki er á því að um það náist víðtæk samstaða. Slíkt myndi tryggja betri framkvæmd laganna en ef þau yrðu afgreidd í ágreiningi og hraði. Markmið frumvarpsins og ákvæði þurfa að halda þó að skipt verði um ríkisstjórnir og áherslur í stjórnmálum. Það að fjórir fjármálaráðherrar hafi komið að vinnslu þess sýnir mikilvægi málsins þvert á flokka. Verði rétt á málum haldið er hér um stórt framfaramál að ræða í fjármálum ríkisins og hins opinbera.
Að mati okkar er umfjöllun um frumvarpið ekki lokið og kynningarefni sem leggja þarf fyrir þingflokkana er ekki tilbúið. Þá er ljóst að upplýsingar um fjölda og umfang málefnasviða og málefnaflokka liggja ekki fyrir fyrr en í haust. Framlagning þessara upplýsinga eru lykilatriði í vinnslu frumvarpsins og þeim breytingum sem snýr að þinglegri meðferð fjárlagafrumvarpa og undirbúningi þeirra.
Frumvarpið um opinber fjármál hefur verið 6 ár í vinnslu hjá færustu sérfræðingum hins opinbera með aðstoð frá AGS. Við afgreiðslu málsins út úr fjárlaganefnd lágu breytingartillögur ekki fyrir fundinum með skýrum hætti. Allar breytingar sem nefndin leggur til að gerðar verði á frumvarpinu þyrfti að rýna vel og leita umsagna faghópanna sem hafa verið að störfum vegna málsins, þannig að upphafleg markmið frumvarpsins nái fram að ganga. Það vinnulag væri í samræmi við faglega ferla málsins hingað til.“

Meiri hlutinn boðaði eftirfarandi:
„Minni hlutinn bendir réttilega á að málið hefur fengið mjög langa og faglega umfjöllun í nefndinni en nefndin hefur fjallað um málið á 25 fundum á þessum vetri og 5 á þeim síðasta. Einnig hefur nefndin farið í tvær utanlandsferðir til að kynna sér þessi mál í Svíþjóð, eina á þessu kjörtímabili og aðra á því síðasta.
Efnislegri umfjöllun er lokið og því á að taka málið úr nefnd. Það að vinna kynningarefni og ákveða fjölda og umfang málefnasviða er tæknilegt úrlausnarnefni.
Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að samið verið um afgreiðslu málsins en það er mikilvægt að fleiri þingmenn en þeir sem sitja í fjárlaganefnd ræði málið og verði upplýstir um efni þess.“

Fundi var frestað frá kl. 8:42 til kl. 09:10.

2) Önnur mál Kl. 09:14
Fleira var ekki gert.

3) Fundargerðir fjárlaganefndar á 144. þingi Kl. 09:15
Fundargerð 73. fundar samþykkt.

Fundi slitið kl. 09:15