Utanríkismálanefnd til Finnlands, Eistlands, Lettlands og Danmerkur

18.9.2011

Dagana 18.-23. september 2011 ferðast utanríkismálanefnd til Finnlands, Eistlands, Lettlands og Danmerkur. Markmið ferðarinnar er að kynna sér ýmsa þætti er varða aðild ríkjanna að Evrópusambandinu (ESB). Í Helsinki munu nefndarmenn m.a. eiga fund með Alexander Stubb Evrópumálaráðherra, stóru nefnd finnska þingsins, þ.e. sú nefnd sem fer með Evrópumál, og fulltrúum í skógar- og landbúnaðarráðuneytinu. Sérstaklega verður horft til áhrifa ESB-aðildar á finnskan landbúnað auk þess sem staða evrunnar verður rædd. Í Tallinn og Rígu verður fundað með Evrópunefndum og utanríkismálanefndum þinganna og sjónum annars vegar beint að aðildarviðræðum Eistlands og Lettlands við ESB og hins vegar að viðbrögðum við yfirstandandi fjármálakreppu. Í Kaupmannahöfn mun utanríkismálanefnd m.a. eiga fund með fulltrúum í utanríkisráðuneytinu um formennsku Dana í ráðherraráði ESB sem hefst um áramótin.

Af hálfu utanríkismálanefndar taka þátt í fundunum Árni Þór Sigurðsson formaður, Valgerður Bjarnadóttir varaformaður, Ólöf Nordal, Helgi Hjörvar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Björgvin G. Sigurðsson og Birgitta Jónsdóttir.