Frestur til að skila umsögnum um frumvörp um fiskveiðistjórnarmál er til 20. ágúst

23.6.2011

Dagana 19. og 20. maí sl. voru lögð fram á Alþingi þrjú frumvörp um fiskveiðistjórnarmál: tvö sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fram, þingmál 826, stjórn fiskveiða (strandveiðar, aflamark, veiðigjald o.fl.), og þingmál 827, stjórn fiskveiða (heildarlög), og eitt sem þingmenn Hreyfingarinnar lögðu fram, þingmál 839, stjórn fiskveiða (uppboð aflaheimilda). Fyrsta málið (mál 826) hefur verið samþykkt sem lög frá Alþingi.

Seinni tveimur málunum (málum 827 og 839) var vísað til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis 6. júní sl. Nefndin hefur nú óskað eftir umsögnum ákveðinna aðila um þau og veitt frest til 20. ágúst nk. til að senda inn umsagnir.

Vakin er sérstök athygli á því að öllum er heimilt að senda umsagnir um framangreind mál á meðan þau eru til meðferðar hjá Alþingi. Munu allar innsendar umsagnir um málin liggja fyrir nefndarmönnum þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur umfjöllun sína um framangreind þingmál.

Leiðbeiningar um ritun umsagna.