Samantekt um þingmál

Hlutafélög

102. mál á 141. löggjafarþingi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að auka gegnsæi í rekstri opinberra hlutafélaga og tryggja að starfsreglur stjórna slíkra félaga séu í samræmi við eigendastefnu ríkis eða sveitarfélaga.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að stjórnir félaga sem falla undir lögin starfi samkvæmt eigendastefnu. Lagðar eru til breytingar er varða boðun aðalfunda, birtingu fundargerða þeirra og að fulltrúar starfsmanna hafi sama rétt og kjörnir fulltrúar ríkis eða sveitarfélaga til að bera fram skriflegar fyrirspurnir á aðalfundum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög nr. 2/1995, um hlutafélög, og lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög.

  • Endurflutt: Hlutafélög, 703. mál (efnahags- og viðskiptaráðherra) á 140. þingi (30.03.2012)
  • Skylt mál: Hlutafélög, 661. mál (efnahags- og viðskiptanefnd) á 141. þingi (08.03.2013)

Kostnaður og tekjur

Hefur ekki áhrif á fjárhag ríkisins.

Umsagnir (helstu atriði)

Gerðar eru athugasemdir við 6. gr. frumvarpsins, sem kveður á um trúnaðaryfirlýsingu stjórnarmanna í opinberum hlutafélögum (ohf.) við eigendastefnu ríkisins, en slík yfirlýsing er meðal annars talin andstæð þeim almennu skyldum sem lagðar eru á stjórnarmenn, skv. 76. gr. laganna um að gæta hagsmuna allra hluthafa. 

Afgreiðsla

Var ekki afgreitt úr nefnd. Efnahags- og viðskiptanefnd flutti frumvarp, 661. mál, um breytingar á 86. gr. laga um hlutafélög til þess að innleiða EES-reglur, samhljóða 3. gr. þessa frumvarps. Frumvarp nefndarinnar var samþykkt.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/36/EB, um nýtingu tiltekinna réttinda hluthafa í skráðum félögum.



Síðast breytt 11.04.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.