Samantekt um þingmál

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög

272. mál á 141. löggjafarþingi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að leggja niður Fóðursjóð og innleiða breytingar á lögum er varða úthlutun tollkvóta innfluttra landbúnaðarvara.

Helstu breytingar og nýjungar

Matskennd skilyrði sem gengið hefur verið út frá við úthlutun tollkvóta verða takmörkuð með því að setja í lög að miðað skuli við magntolla (en ekki verðtolla) þegar tollkvótum er úthlutað.

Breytingar á lögum og tengd mál

Breyta á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, og tollalögum nr. 88/2005.

Kostnaður og tekjur

Tekjur ríkissjóðs gætu aukist um 100 milljónir króna á árinu vegna aukins innflutnings. Það mun ekki hafa áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs að leggja niður Fóðursjóð.

Umsagnir (helstu atriði)

Töluverð gagnrýni kemur fram í umsögnum. Hún beinist meðal annars að óljósu orðalagi sem gæti leitt til matskenndra stjórnvaldsákvarðana og að samkeppnishömlum varðandi innflutning landbúnaðarafurða verði viðhaldið.

Afgreiðsla

Samþykkt nær óbreytt.

Aðrar upplýsingar

Frumvarpið er komið fram til að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis, nr. 6070/2010, þar sem fram kom meðal annars að heimildir ráðherra við úthlutun tollkvóta væru ekki í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar.
Upphaf málsins er að Samtök verslunar og þjónustu leituðu til umboðsmanns Alþingis í júní 2010 og kvörtuðu yfir reglugerðum um tollkvóta vegna innflutnings landbúnaðarvara frá 12. maí 2010.
Samantekt á vef Samtaka verslunar og þjónustu í október 2012.Síðast breytt 27.12.2012. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.