Samantekt um þingmál

Sala fasteigna og skipa

457. mál á 141. löggjafarþingi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að viðskipti með fasteignir og skip verði örugg og réttarstaða aðila sé skýr.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að eftirlitsnefnd fasteignasala, sem hefur stöðu stjórnsýslunefndar, taki við kvörtunum frá kaupendum og seljendum fasteigna telji þeir að fasteignasali hafi valdið sér tjóni. Lögð er til breyting á fyrirkomulagi náms og prófa til löggildingar á störfum fasteignasala og að skylduaðild að félagi fasteignasala verði afnumin. Þá verði einkaréttur fasteignasala til að hafa milligöngu um sölu atvinnufyrirtækja annarra en hlutafélaga afnuminn.

Breytingar á lögum og tengd mál

Fella á úr gildi lög nr. 99/2004, um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa.

Kostnaður og tekjur

Hefur ekki áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs.

Umsagnir (helstu atriði)

Umsagnir eru yfirleitt jákvæðar en samt eru gerðar alvarlegar athugasemdir við ýmsar greinar frumvarpsins, sjá t.d. umsögn Neytendasamtakanna.

Afgreiðsla

Var ekki afgreitt úr nefnd. Efnahags- og viðskiptanefnd flutti frumvarp, 665 mál, þar sem lagðar voru til minniháttar breytingar á núgildandi lögum varðandi fjárhæð eftirlitsgjalds fasteignasala og innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins um varnir gegn peningaþvætti. Frumvarp nefndarinnar var samþykkt.

Aðrar upplýsingar

Löggjöf á Norðurlöndum
Danmörk
Bekendtgørelse af lov om omsætning af fast ejendom LBK nr 1717 af 16/12/2010.

Noregur
Lov om eiendomsmegling (Eiendomsmeglingsloven) LOV-2007-06-29-73.

Tilskipun 2005/60/EB um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og til fjármögnunar hryðjuverkamanna.



Síðast breytt 11.04.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.