Samantekt um þingmál

Almannatryggingar, málefni aldraðra og félagsleg aðstoð

144. mál á 143. löggjafarþingi.
Félags- og húsnæðismálaráðherra.

Markmið

Að skýra ákvæði um réttindi og skyldur borgaranna í samskiptum við Tryggingastofnun ríkisins (TR) og kveða skýrar á um eftirlitshlutverk stofnunarinnar.

Helstu breytingar og nýjungar

Kveðið er á um leiðbeiningar-, upplýsinga-, þagnar- og rannsóknarskyldu TR. Lagðar eru til breytingar varðandi aðila sem upplýsingaskylda hvílir á og tilgreindar eru þær upplýsingar sem afhenda skal stofnuninni í tengslum við afgreiðslu umsókna.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lagðar eru til breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði ríkissjóðs.

Umsagnir (helstu atriði)

Í mörgum umsögnum var tekið undir meginefni frumvarpsins um leiðbeiningarskyldu TR. Meðal þeirra sem gerðu athugasemdir voru Persónuvernd og Ríkisskattstjóri en hann taldi að ákvæði frumvarpsins, um aðgang að gögnum skattyfirvalda, gangi gegn inntaki ákvæðis 117. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Öryrkjabandalag Íslands taldi að of langt væri gengið í skerðingu á friðhelgi einkalífs.

Afgreiðsla

Frumvarpið varð að lögum með þeim breytingum að sett var inn ákvæði um sérstaka upplýsingaskyldu Tryggingastofnunar um vinnslu persónuupplýsinga. Einnig bættust við ákvæði um meðalhóf geymslutíma gagna sem aflað er á grundvelli eftirlits. Við upptalningu aðila sem skylt er að veita Tryggingastofnun upplýsingar bættust ríkislögreglustjóri og Samgöngustofa. Lögin taka gildi 1. febrúar 2014.


Síðast breytt 22.01.2014. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.