Samantekt um þingmál

Fjarskipti

390. mál á 148. löggjafarþingi.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Markmið

Að vernda hagsmuni notenda og stuðla að virkni og heildstæði fjarskiptakerfa.

Helstu breytingar og nýjungar

Með samþykkt frumvarpsins yrðu reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2015/2120/EB, sk. TSM-reglugerð (e. Telecoms Single Market), og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/53/ESB, sk. RED-tilskipun (e. Radio Equipment Directive), innleiddar í íslensk lög. TSM-reglugerðin snýst um ráðstafanir varðandi opinn netaðgang og um breytingu á tilskipun um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og -þjónustu og reglugerð um reiki á almennum farsímanetum innan sambandsins. Nánar tiltekið þá fjallar TSM-reglugerðin um nethlutleysi, þ.e.a.s. að öll umferð um internetið skuli meðhöndluð á jafnræðisgrundvelli og að þannig sé stuðlað að því að það verði vettvangur óheftra boðskipta, nýsköpunar og viðskipta eftir bestu getu. RED-tilskipunin fjallar um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða þráðlausan fjarskiptabúnað fram á markaði. Tilskipunin kveður á um CE-merkingar á fjarskiptabúnaði og leggur kvaðir á framleiðendur, innflytjendur og dreifingaraðila fjarskiptabúnaðar. CE-merking tryggir að fjarskiptabúnaður, þ.m.t. símtæki, talstöðvar og jafnvel leikföng, uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til fjarskiptabúnaðar á EES-svæðinu, með það að meginmarkmiði að slíkur búnaður valdi ekki truflunum á fyrirliggjandi fjarskiptum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um fjarskipti, nr. 81/2003.
Lög um Póst- og fjarskiptastofnun, nr.  69/2003.

Kostnaður og tekjur

Áætlaður kostnaður fyrir ríkissjóð er 35,8 milljónir kr. á árinu 2019, 19,9 milljónir kr. árið 2020 og 14,4 milljónir kr. á árunum 2022-2023.

Afgreiðsla

Frumvarpið var samþykkt með minniháttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2015/2120/EB um ráðstafanir varðandi opinn netaðgang og um breytingu á tilskipun 2002/22/EB um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og -þjónustu og reglugerð (ESB) nr. 531/2012 um reiki á almennum farsímanetum innan Sambandsins. 

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/53/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða þráðlausan fjarskiptabúnað fram á markaði og niðurfellingu á tilskipun 1999/5/EBSíðast breytt 14.05.2018. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.