Samantekt um þingmál

Ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta

122. mál á 150. löggjafarþingi.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Markmið

Að innleiða tilskipun Evrópusambandsins um ráðstafanir til að lækka kostnað við uppbyggingu á háhraða rafrænum fjarskiptanetum. Að stuðla að og hvetja til hagkvæmari uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta með því að auðvelda sameiginlega nýtingu á núverandi efnislegum grunnvirkjum og með því að hvetja til skilvirkari uppbyggingar á nýjum efnislegum grunnvirkjum þannig að útbreiðsla slíkra neta sé möguleg með lægri kostnaði.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að fjarskiptafyrirtæki geti beðið um tilteknar lágmarksupplýsingar rekstraraðila neta um annars vegar fyrirliggjandi efnisleg grunnvirki og hins vegar yfirstandandi eða fyrirhugaða leyfisskylda mannvirkjagerð í því skyni að kanna möguleika á samnýtingu fyrirliggjandi innviða eða samhæfingu framkvæmda í því skyni að hraða uppbyggingu háhraða fjarskiptaneta. Gert er ráð fyrir að rekstraraðilum beri skylda til að verða við réttmætum beiðnum um aðgang að fyrirliggjandi efnislegum grunnvirkjum með uppbyggingu háhraða fjarskiptaneta í huga, samkvæmt sanngjörnum og eðlilegum skilmálum, þ.m.t. um verð. Synji rekstraraðili nets slíkri beiðni eða náist ekki samningar um skilmála og skilyrði er lagt til að báðum málsaðilum verði heimilt að vísa málinu til ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar. Einnig er gert ráð fyrir að sérstakar skyldur séu lagðar á þá rekstraraðila nets sem standa beint eða óbeint að mannvirkjagerð sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð úr opinberum sjóðum. Lagt er til að Póst- og fjarskiptastofnun leysi úr ágreiningi milli aðila sem kann að koma upp við túlkun ákvæða með bindandi ákvörðun. Samhliða myndi stofnunin einnig þjóna sem miðlæg upplýsingaþjónusta og annast milligöngu upplýsingaöflunar fyrir fjarskiptafyrirtæki gagnvart rekstraraðila nets, sé þess óskað.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á afkomu ríkissjóðs.

Afgreiðsla

Samþykkt með lítils háttar breytingum, sem eru tæknilegs eðlis.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2014/61 frá 15. maí 2014 um ráðstafanir til að lækka kostnað við uppbyggingu á háhraða rafrænum fjarskiptanetum.


Verkefnið Ísland ljóstengt (í umsjá fjarskiptasjóðs).



Síðast breytt 21.10.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.