Samantekt um þingmál

Sviðslistir

276. mál á 150. löggjafarþingi.
Mennta- og menningarmálaráðherra.

Markmið

Að efla íslenskar sviðslistir (leiklist, danslist, óperuflutning, brúðuleik og skylda liststarfsemi) á landinu öllu, kveða á um fyrirkomulag sviðslista og búa þeim hagstæð skilyrði.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að starfsrammi Þjóðleikhússins sé lagaður að ríkjandi starfssviði og að lagastoð sé sett fyrir starfsemi Íslenska dansflokksins. Þá er lagt til að sviðslistaráð taki við af leiklistarráði og að settur verði á stofn sviðslistasjóður sem hefði m.a. það hlutverk að efla sviðslistir með fjárhagslegum stuðningi og kosta önnur verkefni á sviði sviðslista á landinu öllu.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög og við gildistöku laganna falla brott leiklistarlög, nr. 138/1998.
  • Endurflutt: Sviðslistir, 800. mál (mennta- og menningarmálaráðherra) á 149. þingi (01.04.2019)

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir óverulegum kostnaði fyrir ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum. M.a. var fallið frá þeirri skyldu að auglýsa embætti þjóðleikhús- eða listdansstjóra við lok fyrra skipunartímabils þegar þegar hefur verið ákveðið að endurnýja ráðningu. Samþykkt var að kveða á um skyldu ráðherra, en ekki einungis heimild, til að stofna kynningarmiðstöð sviðslista. Þá var samþykkt að einungis atvinnuhópar fái styrkveitingar úr Sviðslistasjóði og núverandi fyrirkomulag við úthlutanir til áhugahópa verði óbreytt.


Síðast breytt 17.03.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.