Samantekt um þingmál

Fæðingar- og foreldraorlof

393. mál á 150. löggjafarþingi.
Félags- og barnamálaráðherra.

Markmið

Að tryggja börnum frekari samvistir við báða foreldra sína og gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs annars vegar og fæðingarstyrks hins vegar verði lengdur um þrjá mánuði, eða í tólf mánuði, og að lengingin komi til framkvæmda í tveimur áföngum. Er þannig gert ráð fyrir að samanlagður réttur foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2020 eða síðar lengist um einn mánuð eða úr níu mánuðum í tíu mánuði. Síðan mun samanlagður réttur foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar lengjast um tvo mánuði til viðbótar og fer þá úr tíu mánuðum í tólf mánuði.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.

Kostnaður og tekjur

Áætlað er að heildarkostnaður við lengingu á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs um einn mánuð vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur árið 2020 nemi um 1,7 milljörðum kr. sem skiptist á árin 2020 og 2021. Auk þess er áætlað að kostnaður vegna lengingar á rétti foreldra til fæðingarorlofs um tvo mánuði vegna barna sem fæðast eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar nemi um 3,2 milljörðum kr. sem skiptist á árin 2021 og 2022.

Afgreiðsla

Samþykkt með þeim breytingum að samanlagður réttur til fæðingarorlofs og réttur til fæðingarstyrks var lengdur í tíu mánuði en ekki tólf. Að auki var samþykkt bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið er á um það að ráðherra skuli í október 2020 leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga þar sem kveðið verði á um að foreldrar barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar skuli eiga rétt á tólf mánaða samanlögðu fæðingarorlofi og um skiptingu þess milli foreldra sem og um lengingu á rétti til fæðingarstyrks í tólf mánuði.

Aðrar upplýsingar




Síðast breytt 12.03.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.