Samantekt um þingmál

Styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma

232. mál á 152. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að stuðla að því að rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli sökum takmarkana á opnunartíma veitingastaða vegna heimsfaraldurs kórónuveiru geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa takmarkananna gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til nýtt stuðningsúrræði til að koma til móts við vanda aðila í veitingarekstri sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli sökum takmarkana á opnunartíma sem gripið var til vegna heimsfaraldurs kórónuveiru á síðari hluta árs 2021 og í ársbyrjun 2022. Gert er ráð fyrir að stuðningurinn felist í beinum styrkjum úr ríkissjóði til þeirra rekstraraðila sem hafa veitingaleyfi í flokki II og III skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og sættu takmörkunum á opnunartíma í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar vegna opinberra sóttvarnaráðstafana.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög.

Kostnaður og tekjur

Áætluð heildaráhrif á ríkissjóð eru háð nokkurri óvissu. Að hámarki er talið að kostnaður fyrir ríkissjóð gæti numið 3 milljörðum kr. en líklegra er talið að hann verði nær 1,5 milljörðum kr.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum. Skilgreining á veitingastöðum var látin ná til veitingarekstrar á vegum gististaða með vínveitingaleyfi (sem falla undir flokk IV skv. 3. mgr. 3 gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald). Styrktímabilið hefst í nóvember 2021 í stað desember 2021. Hafi rekstraraðila verið ákvarðaður viðspyrnu- eða lokunarstyrkur á sama tímabili og sótt er um styrk samkvæmt þessum lögum þá dregst hann frá styrknum.


Síðast breytt 15.02.2022. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.