Samantekt um þingmál

Aðgerðir gegn skattundanskotum og skattsvikum

561. mál á 148. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að stemma stigu við skattundanskotum og skattsvikum.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að föstum starfsstöðvum félaga í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, sem staðsettar eru hér á landi, verði heimil samsköttun með innlendum samstæðufélögum. Lagt er til að kveðið sé skýrar á um skilaskyldu launagreiðanda á staðgreiðslu af launum í þeim tilvikum þegar um er að ræða útleigu á vinnuafli. 

Gert er ráð fyrir að sett verði á stofn rafrænt skráningarkerfi fyrir erlend atvinnufyrirtæki sem selja öðrum en atvinnufyrirtækjum hér þjónustu sem veitt er rafrænt, fjarskiptaþjónustu og útvarps- og sjónvarpsþjónustu. 

Lögð er til breyting á tollfríðindum hópbifreiða sem fluttar eru til landsins tímabundið þegar bifreið er ekki flutt úr landi með þeim ferðamannahópi sem bifreiðin var ætluð við innflutning. Jafnframt er gert ráð fyrir að tollyfirvöldum verði heimilað að fjarlægja skráningarmerki af ökutækjum sem hafa verið flutt inn á grundvelli tollfríðindaákvæða tollalaga, sem heimila tímabundna niðurfellingu tolls vegna ökutækja sem nota á tímabundið hér á landi. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003.

Lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.

Lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

Tollalög, nr. 88/2005.

Kostnaður og tekjur

Ákvæði frumvarpsins um að heimild hlutafélaga til samsköttunar nái einnig til fastra starfsstöðva félaga innan Evrópska efnahagssvæðisins gæti hugsanlega haft einhver áhrif á ríkissjóð hvort heldur er til hækkunar eða lækkunar á tekjum. Gert er ráð fyrir 70-80 milljóna kr. einskiptiskostnaði vegna smíði sérstaks skráningarkerfis fyrir einfalda skráningu sem heimiluð verður erlendum aðilum sem selja rafræna þjónustu o.fl. hingað til lands.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingu.

Aðrar upplýsingar

Milliverðlagning og faktúrufölsun. Skýrsla starfshóps. Fjármála- og efnahagsráðuneytið, júní 2017.

Umfang skattundanskota og tillögur til aðgerða. Skýrsla starfshóps. Fjármála- og efnahagsráðuneytið, júní 2017.

Skattskylda af erlendri ferðaþjónustustarfsemi á Ísland. Skýrsla starfshóps. Fjármála- og efnahagsráðuneytið, júlí 2017.



Síðast breytt 12.06.2018. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.