27.11.2019

Afgreiðslu fjárlaga aldrei áður lokið svo snemma

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 varð að lögum á Alþingi í dag, 27. nóvember, en 3. umræðu lauk í gær eins og áætlað var í starfsáætlun þingsins. Umræðu og afgreiðslu fjárlaga næsta árs hefur aldrei lokið svo snemma, eða fyrir lok nóvembermánaðar. Á síðustu árum hefur 3. umræðu og lokaatkvæðagreiðslu frumvarpsins oftar lokið eftir miðjan desember.

Árið 2005 voru fjárlög afgreidd 4. desember og höfðu þá ekki áður verið afgreidd fyrr að hausti. Algengasti lokadagur atkvæðagreiðslu um fjárlög síðasta aldarfjórðunginn er 22. desember en fjárlög hafa verið tekin til lokaatkvæðagreiðslu sex sinnum á þeim degi frá 1991.

Að lokinni atkvæðagreiðslu færði Guðjón S. Brjánsson, 1. varaforseti Alþingis, fjárlaganefnd þakkir fyrir mikið og gott starf og þingmönnum öllum þakkir fyrir málefnalega umfjöllun um fjárlagafrumvarpið. Hann gat þess ennfremur að tímanleg afgreiðsla fjárlaga væri til mikilla bóta fyrir alla þá sem þurfa að vinna eftir þeim lögum.