12.9.2023

Ávarp forseta Alþingis við setningu 154. löggjafarþings

Hv. alþingismenn. Ég býð ykkur velkomna til starfa á 154. löggjafarþingi, sem nú er að hefjast, og vona að þinghléið hafi reynst ykkur og fjölskyldum ykkar gott og endurnærandi. Einnig býð ég velkomna gesti Alþingis við þingsetningarathöfnina og ég heilsa starfsfólki skrifstofu Alþingis og vænti góðs af samstarfinu við ykkur eins og á fyrri þingum.

Setning Alþingis markar jafnan tímamót í þjóðlífinu. Þegar þingið kemur saman eru sumarmánuðir útiveru, leikja og hvíldar að baki og fram undan eru annasamar vikur og mánuðir fyrir okkur sem störfum á þessum vettvangi. Athygli samfélagsins beinist í ríkum mæli að þinginu, löggjafarstarfinu, pólitískri umræðu og öðru sem þar gerist. Forsætisnefnd Alþingis hefur þegar birt starfsáætlun þessa löggjafarþings og þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar verður lögð fram nú við upphaf þinghaldsins. Þá liggur í meginatriðum fyrir hver helstu viðfangsefni okkar verða við löggjafarstarfið og hvaða tími okkur er ætlaður til að sinna þeim skyldum okkar sem lúta að lagasetningu. Við getum búist við því að hafa ærinn starfa og það er mikilvægt að halda vel á spöðunum og láta ekki tímann fara til einskis. Ef að vanda lætur verður starf okkar hér tilefni frétta og umfjöllunar af ýmsu tagi, og er það vel því stjórnmálafréttir og öflug stjórnmálaumræða eru einmitt eitt af mikilvægum einkennum hins opna lýðræðissamfélags sem við viljum viðhalda og vernda. Ef ég þekki hv. þingmenn rétt munu þeir hvorki skorast undan því að taka þátt í almennu stjórnmálaumræðunni utan þings, né þeirri sem fram fer hér í þingsalnum, en hvað þá síðarnefndu varðar er gott að hafa hugfast að góð orð og spakleg geta hæglega sokkið og horfið í langvinnum orðaflaumi.

Þegar við kvöddumst við þingfrestun 9. júní síðastliðinn lét ég þess getið að nú í haust yrði tekið í notkun nýtt skrifstofuhúsnæði Alþingis við Tjarnargötu. Þetta endurtek ég nú og flyt jafnframt þau góðu tíðindi að flutningar í nýja húsið eru mun skemmra undan heldur en þegar við kvöddumst í vor. Enn er þó verið að vinna að frágangi við nýbygginguna og ég ætla því ekki að fara með nákvæma dagsetningu á því hvenær flutt verður. Ég tel þó fullvíst að við munum flytja inn áður en haustþingi lýkur.

Í nýja húsinu verða fundarherbergi fastanefnda þingsins, skrifstofur þingmanna, funda- og starfsaðstaða þingflokka og starfsliðs þeirra og einnig mun hluti starfsfólks skrifstofu Alþingis hafa þar vinnuaðstöðu. Ég er sannfærður um að þessi nýja aðstaða verður til mikilla framfara fyrir dagleg störf okkar hér á þinginu.

Hv. þingmenn. Við komum úr ýmsum áttum og höfum ólík sjónarmið og viðhorf til viðfangsefna þessa samfélags og þeirra lausna sem á þau er beitt. En við eigum það sameiginlegt að vera kjörnir fulltrúar almennings með lýðræðislegum hætti til að sinna þeim skyldum sem þingmennskan leggur okkur á herðar. Við munum á þessu þingi takast á með orðum, bera fram röksemdir, taka rökum, ná samkomulagi eða eftir atvikum vera ósammála en einnig munum við taka ákvarðanir og setja lög sem varða hvert og eitt okkar sem búum hér á landi. Það er bæði hlutverk okkar og skylda. Ég óska þess að okkur takist, þrátt fyrir ágreining um ýmis efni, að eiga gott samstarf á þessu löggjafarþingi eins og oftast hefur verið hér á Alþingi, og þá mun okkur lánast að þoka ýmsum málum áfram til heilla fyrir land og þjóð.

Ávarp forseta Alþingis við þingsetningu 12. september 2023

_DSC0863
Forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, flytur ávarp við setningu 154. löggjafarþings.
Ljósmynd / Eyþór Árnason