8.9.2015

Ávarp forseta Alþingis við setningu Alþingis

Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, flutti ávarp við setningu Alþingis 8. september 2015.

Ég býð hv. alþingismenn og gesti Alþingis við þingsetningarathöfnina velkomna. Ég vænti þess að eiga gott samstarf við alla hv. alþingismenn á nýju löggjafarþingi og vona að störf okkar megi verða landi og þjóð til gæfu.

Nú þegar Alþingi kemur saman að nýju eftir óvenjustutt sumarhlé frá þingfundastörfum bíða okkar margvísleg verkefni. Vitaskuld verða pólitísk átök um ýmis þau mál sem þingið tekst á við. Það er gangur stjórnmálanna og endurspeglar mismunandi viðhorf sem eðlilegt er að leidd séu fram í umræðu í opnu lýðræðislegu þjóðfélagi. Alþingi er slíkur vettvangur enda hornsteinn okkar samfélags. Á okkur hvílir því mikil ábyrgð í krafti þess umboðs sem við höfum sótt okkur til almennings í almennum kosningum. Lög um þingsköp Alþingis eru sá rammi sem við setjum um starfshætti okkar og umræður í þingsalnum. Mikilvægt er að þessi umgjörð geri allt í senn, að tryggja lýðræðislega umræðu, leiða fram vilja þingsins, virða rétt minni hlutans og skapa svigrúm til vandaðrar málsmeðferðar. Þetta getur verið vandrötuð leið enda sýnist líka sitt hverjum um hvernig þessar leikreglur eigi nákvæmlega að vera.

Við höfum nú á þessu kjörtímabili unnið að endurskoðun á þingsköpunum á grundvelli þeirrar vinnu sem átti sér stað á síðasta kjörtímabili. Þetta starf hefur orðið tafsamara en ég hugði. Það þarf þó ekki að vera alslæmt. Einmitt vegna þess að þessi vinna stendur enn yfir gefst okkur nú tækifæri til að læra af reynslunni, ekki síst reynslu síðasta þings. Á þetta mun reyna nú í vetur. Veit ég að þingmenn vilja leggja sig fram um þetta verkefni enda okkur ljóst að mikið er í húfi að vel takist til. Við eigum ekki og megum ekki nálgast þetta viðfangsefni sem stjórn eða stjórnarandstaða, minni hluti eða meiri hluti. Við hljótum einfaldlega að takast á við verkefnið sem þjóðkjörnir alþingismenn og af virðingu og metnaði fyrir löggjafarsamkomunni. Okkur er það líka vel ljóst að stjórnarandstaða gærdagsins getur verið stjórn dagsins í dag. Hagsmunir okkar allra fara því saman í því að sníða umgjörðina um störf okkar þannig að hún verði í þágu Alþingis, þeirrar stofnunar sem fer með löggjafarvaldið á grundvelli hins lýðræðislega umboðs sem við þingmenn höfum fengið frá þjóðinni.

Þau þingsköp sem við búum við eru ekki ósvipuð þeim sem gilda í þeim ríkjum sem við berum okkur helst saman við, svo sem á Norðurlöndunum. Það er því mikið umhugsunarefni að þinghaldið hjá okkur er oft og tíðum býsna frábrugðið því sem þar tíðkast. Skýringanna hlýtur því að vera að leita annars staðar en í leikreglunum sem við höfum leitt í lög. Þetta hefur verið mér talsvert umhugsunarefni á síðustu mánuðum og við hljótum öll að velta þessu fyrir okkur.

Ég vil nota þetta tækifæri og láta í ljós ánægju mína með hversu vel tókst til með hátíðahöldin hér á Alþingi og á Austurvelli 19. júní sl. á 100 ára kosningarréttarafmæli kvenna. Sú samstaða sem ríkti um þingsályktunina sem samþykkt var af þessu tilefni var ákaflega ánægjuleg. Þessi dagur var Alþingi til mikils sóma og öllum þeim sem að undirbúningnum komu. Ég vil líka ítreka þakkir fyrir þá glæsilegu gjöf sem Alþingi fékk þann dag með afhjúpun á styttunni af Ingibjörgu H. Bjarnason, fyrstu konunni sem kjörin var til setu á Alþingi. Styttan er glæsileg táknmynd þeirra fjölmörgu kvenna sem ruddu brautina í jafnréttismálum í upphafi síðustu aldar. Höggmyndin, sem Ragnhildur Stefánsdóttir gerði, er sannkallað listaverk sem sómir sér vel hér við Skála Alþingis. Ég hef tekið eftir því að hún vekur mikla athygli þeirra fjölmörgu sem hér eiga leið um, innlendra jafnt og erlendra gesta.

Á fundi forsætisnefndar í síðasta mánuði voru til umfjöllunar drög að frumvarpi til breytinga á lögum um rannsóknarnefndir Alþingis. Það frumvarp er byggt á viðamikilli úttekt sem lagaskrifstofa þingsins vann fyrir forsætisnefnd á síðasta ári um þann lærdóm sem draga má af reynslunni af störfum rannsóknarnefndanna þriggja sem Alþingi skipaði eftir fall bankanna 2008. Sú úttekt var birt á vef Alþingis fyrr á þessu ári og hefur því verið aðgengileg öllum þeim sem hafa viljað kynna sér hana. Vinna við frumvarpið er langt komin og stefnir forsætisnefnd að því að það verði lagt fram á næstu vikum.

Forsætisnefnd hefur einnig ákveðið að leggja fram í þingbyrjun að nýju tillögu sína um siðareglur fyrir alþingismenn. Sú tillaga var lögð fram undir lok síðasta þings í samkomulagi allra flokka. Vegna þess ástands sem þá ríkti í þinghaldinu tókst ekki að afgreiða málið en ég vænti þess að okkur takist að ljúka því verki snemma á þessu haustþingi. Forsætisnefnd mun einnig endurflytja á næstunni frumvarp sem nefndin flutti á síðasta þingi um ný heildarlög fyrir Ríkisendurskoðun en ekki tókst að ljúka afgreiðslu þess á því þingi. Loks er þess að geta að staðið hefur yfir heildarendurskoðun á lögum um umboðsmann Alþingis. Ætti afrakstur þeirrar vinnu að geta litið dagsins ljós síðar á þessu hausti.

Ég vil að síðustu geta þess að 67. þing Norðurlandaráðs verður haldið í Reykjavík 27.–29. október nk. í Hörpu. Þingfundir á Alþingi falla niður þá daga.

Þessum þingfundi verður brátt frestað og vil ég biðja þingmenn og gesti að þiggja veitingar í tilefni dagsins í Skála Alþingis.

Ég bið hæstv. forsætisráðherra að ganga fremstan með mér úr salnum til Skála. Þessum fundi verður nú frestað til kl. 13.