14.4.2015

Ávarp forseta við upphaf þingfunda á vorþingi

Við upphaf þingfunda á vorþingi 13. apríl 2015 minntist forseti Alþingis þess að 75 ár eru liðin frá því að Íslendingar tóku við stjórn allra málefna ríkisins auk þess að ræða þinghaldið á vorþingi og nýjan vef þingsins.

Ávarp forseta Alþingis

 

Ég býð alla hv. alþingismenn, svo og ríkisstjórn, velkomna til þingstarfa að nýju eftir páskahlé. Fram undan er síðasta lota þessa löggjafarþings, vorþingið eins og þingsköp áskilja. Án efa munu miklar annir verða á vorþingi, enda eru mörg mál til meðferðar, sum alveg ný af nálinni, en frestur til framlagningar nýrra þingmála rann út í dymbilviku, 31. mars sl. Ég vænti góðs samstarfs við þingmenn alla, sérstaklega ríkisstjórn og forustu stjórnarandstöðu, til þess að ljúka megi þingstörfum á þessu vorþingi með sóma.

Veigamikill þáttur í störfum okkar alþingismanna er sú tækni sem orðið hefur í öllum samskiptum með neti, vefjum, ritvinnslu, tölvupósti og samfélagsmiðlum. Sú þróun hefur opnað möguleika til meira gagnsæis og auðveldari aðgangs að öllum upplýsingum. Alþingi hefur reynt að fylgja þróuninni og raunar er það svo að vefur þingsins hlýtur lof, einkum þeirra sem nota hann mikið.

Þróunin er ör og enn hafa verið gerðar breytingar sem til framfara eiga að horfa. Tímabært þótti orðið að búa svo um að efni af vef þingsins mætti sækja í gegnum snjallsíma og spjaldtölvur. Jafnhliða þessu var farið í nauðsynlegar uppfærslur á vefnum þannig að útlitið tæki mið af breyttu viðmóti. Leiðarljós við þetta skref er að bæta leit á vefnum þannig að upplýsingar um þingstörfin, lög í landinu og opinber gögn um störf Alþingis séu eins góðar og tæknin leyfir. Sú breyting sem ég geri hér að umtalsefni var gerð nokkru fyrir páska. Ekki er öllum lagfæringum lokið og verður áfram unnið að þeim, m.a. með hliðsjón af viðbrögðum og viðtökum notenda vefsins á næstunni.

Hv. alþingismenn. Ég vil við þetta tækifæri vekja athygli á því að sl. föstudag, 10. apríl, voru liðin 75 ár frá því að Alþingi gerði eina mikilvægustu samþykkt í sögu þjóðarinnar. Þá tóku Íslendingar í raun að fullu við stjórn allra málefna ríkisins. Þetta var annars vegar ályktun um meðferð æðstu stjórnar ríkisins þar sem ríkisstjórn Íslands var að svo stöddu falin meðferð konungsvalds og ályktun um að Ísland tæki meðferð utanríkismála og landhelgisgæslu að öllu leyti í sínar hendur.

Þessir atburðir komu í kjölfar innrásar Þjóðverja í Danmörku 9. apríl 1940 en þar með urðu Danir ófærir um að rækja skyldur sínar samkvæmt dönsk-íslensku sambandslögunum frá 1918. Fregnin um innrásina í Danmörku barst hingað þegar um morguninn 9. apríl. Sat ríkisstjórnin á fundum allan daginn, svo og utanríkismálanefnd, og mikið samráð var milli þingmanna og þingflokka. Miklu skipti að ríkisstjórnin hafði séð fyrir hættuna og undirbúið sig með leynd af mikill framsýni og öryggi fyrir þá atburði er þarna urðu og þannig tryggt hagsmuni íslenska ríkisins á ógnartímum í sögu mannkyns.

Á grundvelli stjórnskipulegs neyðarréttar tók Alþingi á næturfundi aðfaranótt 10. apríl 1940, með samhljóða atkvæðum allra þingmanna, ákvörðun um fullkomin yfirráð Íslendinga við þessar aðstæður á málefnum sínum. Næstu skref Íslendinga voru síðan stofnun embættis ríkisstjóra ári síðar og svo lýðveldis á Þingvöllum árið 1944. Báðir þessar ályktanir Alþingis eru til marks um veigamikið hlutverk þingsins í stjórnskipun Íslands og þátt þess í sögu þjóðarinnar. Þar skipti sköpum samheldni og örugg forusta. Það er fyllsta ástæða til að halda í heiðri sögu þessara atburða og minningu þeirra manna sem þá voru hér á vettvangi.

Ég lýk þessum ávarpsorðum mínum nú með þeirri hvatningu til alþingismanna að við reynum að standa við þá starfsáætlun sem við settum okkur sl. haust og samstaða var um. Ég veit að það getur reynst erfitt, ekki síst vegna þess að mörg mál eru seint fram komin líkt og allt of oft hefur hent. Með góðu starfsskipulagi, forgangsröðun og samvinnu þingmanna og ráðherra er þó að mínu mati unnt að ljúka þingstörfum á tilsettum tíma þannig að sómi sé að, jafnt fyrir þing og þjóð.

Í júnímánuði ætlar Alþingi að minnast að sínu leyti þess að 100 ár eru liðin síðan íslenskar konur fengu kosningarrétt. Ég hvet til samstöðu þingflokkanna um hvernig að hátíðarþingfundi 19. júní nk. verður staðið.