16.5.2014

Ávarp forseta Alþingis við þingfrestun

Ávarp forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar, við þingfrestun 16. maí 2014


Háttvirtir alþingismenn.

Nú er komið að lokum síðasta fundar Alþingis að sinni. Þingstörfum lýkur í fyrra lagi í samræmi við starfsáætlun Alþingis. Í því fólst mat á því hvenær væri eðlilegt að þingmenn vikju af sviðinu fyrir þeim sem bjóða sig fram til sveitarstjórna í kosningunum 31. maí nk.

Ég mun nú gefa tölulegt yfirlit um störf 143. þings.

Þingið stóð frá 1. október 2013 til 16. maí 2014. Á þingtímanum urðu þingfundardagar alls 93. Þingfundir hafa verið 121 og stóðu þeir samtals í 596 klukkustundir. Lengst var umræðan um fjárlög sem stóð í rúmar 47 klukkustundir og um aðildarviðræður við Evrópusambandið sem tók rúmar 27 klukkustundir.

Á þingtímanum samþykkti Alþingi 91 frumvarp sem lög og 48 þingsályktanir voru samþykktar sem ályktanir Alþingis. Á fyrirspurnarfundum var 58 fyrirspurnum svarað munnlega og 206 fyrirspurnum var svarað skriflega. Þá svöruðu ráðherra 226 fyrirspurnum í óundirbúnum fyrirspurnartímum. Sérstakar umræður urðu alls 41.

Á þessu þingi voru 13 dagar eingöngu helgaðir nefndastarfi fyrir utan reglubundna nefndafundi yfir þingtímann. Á yfirstandandi þingi hafa verið haldnir 503 nefndafundir og eru það 63 fundir að meðaltali á hverja fastanefnd. Alls stóðu nefndafundir í 895 klukkustundir og er meðaltalið 112 klukkustundir á nefnd. Þá bárust nefndum 1758 umsagnir og erindi og gestir á fundum nefnda voru 2127 manns.

Eins og heyra má af þessu yfirliti um störf 143. löggjafarþings hefur þingið verið mjög athafnasamt. Á yfirstandandi löggjafarþingi var okkur sniðinn þröngur stakkur vegna sveitarstjórnarkosninganna, en með góðu skipulagi var fjöldi þingfundadaga og nefndadaga ekki ósvipaður því sem hefur verið að jafnaði. Í þessu sambandi er ánægjulegt til þess að vita að okkur hefur tekist að standa við starfsáætlun Alþingis.

Athyglisvert er að sú þróun er að festast í sessi að þingmanna- og nefndamál eru að verða æ stærri hluta þeirra mála sem afgreidd eru á hverju þingi. Þessi þróun hófst að verulegu marki á þinginu 2008-2009, en á yfirstandandi þingi hafa hins vegar verið samþykkt fleiri þingmannamál en um langt árabil. Þannig voru samþykkt sem lög 4 þingmannafrumvörp og 22 þingmannatillögur voru samþykktar sem ályktanir Alþingis á þessu þingi eða samtals 26 þingmannamál. Á síðustu árum höfðu flest afgreidd þingmannamál verið 24 á 139. löggjafarþingi, 2010- 2011. Til viðbótar eiginlegum þingmannamálum urðu 13 nefndafrumvörp að lögum á yfirstandandi löggjafarþingi og 7 nefndatillögur voru samþykktar sem ályktanir Alþingis. Þessi þróun styrkir þá sérstöðu sem Alþingi hefur meðal þingræðisríkja, en óvíða er beinn þáttur og frumkvæði þingmanna í löggjafarstarfinu meiri en hér. Það sést meðal annars af því að þingmál, sem lögð eru fram af ríkisstjórnum taka mun meiri breytingum í meðförum Alþingis, en gengur og gerist með sambærileg mál á flestum öðrum þjóðþingum. Þetta er gagnstætt því sem oft er sagt um okkar góðu stofnun, sem oft hefur sætt því að vera kölluð viljalaust verkfæri framkvæmdarvaldsins og jafnvel eitthvað þaðan af verra.

Það fer ekki fram hjá þeim sem fylgjast með störfum Alþingis að oft er hart tekist á um ýmis mál. Slíkt er eðlilegt því við erum kjörin til setu hér sem fulltrúar ólíkra sjónarmiða og um mörg mál verður því aldrei samkomulag eða sátt. Störf Alþingis nú á vetrar- og vorþingi hafa einmitt einkennst af hörðum átökum um ýmis mál. Það er hins vegar dæmi um styrk Alþingis að þrátt fyrir að við séum ekki sammála um ágreiningsmál, eins og frumvarpið um veiðigjöld er gott dæmi um, þá auðnast okkur jafnan að ná samkomulagi um hvernig meðferð slík mál skuli fái á Alþingi og hvernig þau skuli leidd til lykta.

Óháð þessu atriði er það hins vegar staðreynd að flest þingmál eru hér afgreidd í góðri sátt líkt og almennt er veruleikinn í nágrannaþingum okkar. Það er lýsandi fyrir þessa stöðu að um margra áratuga skeið hafa um 75% allra samþykkra lagafrumvarpa verið afgreidd í efnislegu samkomulagi.

Þegar við skyggnumst um gáttir nú við lyktir 143. löggjafarþingsins þá er því ljóst að yfirgnæfandi hluti mála - og þar með talin ýmis stór mál - eru afgreidd í pólitískri sátt. Það er sannarlega vel og lýsir styrk löggjafarsamkomunnar, hvað sem hver segir.

Það er vonandi þannig að við höfum tileinkað okkur hvatningarorð Pollapönksins:

Lífið er of stutt fyrir skammsýni
Úr vegi skal nú rutt allri þröngsýni
Og…Verum öll samtaka þið verðið að meðtaka.

Háttvirtir alþingismenn.

Á síðustu árum hefur æ meiri áhersla verið lögð á mikilvægi eftirlitshlutverks Alþingis og hefur það birst m.a. í nýjum ákvæðum í þingsköpum og sérstökum lögum um rannsóknarnefndir á vegum Alþingis. Á þessu þingi hefur Alþingi haft til umfjöllunar niðurstöður tveggja rannsóknanefnda sem Alþingi kom á fót til að fjalla um málefni Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna og birtist í tveimur viðamiklum skýrslum. Meginþungi hinnar þinglegu vinnu hefur hvílt á stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og vil ég færa nefndinni þakkir fyrir vel unnin störf. Með vandaðri vinnu sinni í þessum málum hefur nefndin mótað vinnulag sem er til fyrirmyndar um góða starfshætti.

Störf þeirra þriggja rannsóknarnefnda sem Alþingi hefur komið á fót síðan 2008 hafa nokkrum sinnum komið til umfjöllunar í forsætisnefnd, enda hefur þeim ekki auðnast að ljúka störfum á tilskildum tíma og kostnaður við störf þeirra orðið mun meiri en ætlað var í upphafi.

Forsætisnefnd Alþingis hefur verið sammála um að mikilvægt sé að framvegis verði rannsóknarnefndum ekki komið á fót fyrr en fyrir liggur skýr og afmarkaður verkefnarammi og raunhæf kostnaðaráætlun auk þess sem settar verði verklagsreglur um störf nefndanna. Með hliðsjón af þessari umræðu ákvað forsætisnefnd á síðasta ári að fela lagaskrifstofu Alþingis að taka saman í greinargerð upplýsingar um reynsluna af störfum þessara þriggja rannsóknarnefnda sem og að meta framkvæmd laga um rannsóknarnefndir. Greinargerðin verður til umfjöllunar á fundi forsætisnefndar í ágúst nk. og mun forsætisnefnd í framhaldinu undirbúa þær lagabreytingar sem taldar verða nauðsynlegar.

Nú á þessu vori mælti ég, fyrir hönd forsætisnefndar, fyrir frumvarpi til nýrra heildarlagalaga um ríkisendurskoðanda. Málinu var vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem sendi það til umsagnar. Ég vænti þess að okkur takist að afgreiða frumvarpið sem lög frá Alþingi fyrir lok þessa árs. Þá hefur verið unnið að heildarendurskoðun laga um embætti umboðsmanns Alþingis og er sú vinna langt komin.

Eins og þingmönnum er kunnugt um hefur á þessu þingi hefur verið unnið að endurskoðun þingskapanna með þátttöku allra þingflokka. Það var hins vegar mat mitt að ekki væri raunhæft að reyna að ljúka því verki fyrir þinglok og því hefur nokkuð hægst á þeirri vinnu. Verkinu hefur þó miðað allvel áfram og vonast ég til að því megi ljúka á næsta þingi.

Í gær sótti ég hátíðarsamkomu í norska Stórþinginu þar sem fagnað var 200 ára afmæli þingsins og stjórnarskrár Noregs, sem samþykkt var á Eiðsvöllum 17. maí 1814. Við það tækifæri færði ég norska þinginu að gjöf frá Alþingi endurgerð fyrsta samnings landanna á skinni. Það var samningur sem Alþingi gerði 1022 við Ólaf helga Haraldsson um rétt Íslendinga í Noregi og gagnkvæman rétt Norðmanna á Íslandi. Með hæfilegri einföldun má kannski segja að þetta hafi verið fyrsti milliríkjasamningurinn sem gerður var af hálfu Íslendinga.

Afmælishátíð Norðmanna leiðir hugann að því að senn styttist í að við getum fagnað 100 ára afmæli fullveldis þjóðarinnar. Sambandslaga-samningurinn árið 1918 er líklega mikilvægasti áfanginn í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Það er til marks um hversu Íslendingar töldu samninginn stóran áfanga að í 19. gr. hans var sú skylda lögð á hendur danskra stjórnvalda að tilkynna erlendum ríkjum að Danmörk hefði viðurkennt Ísland sem fullvalda ríki.

Ég tel að tímabært sé að við förum að huga að því með hvaða hætti við viljum minnast þessa fullveldisafmælis. Vel færi á því að þetta yrði sameiginlegt verkefni Alþingis og ríkisstjórnar.

Ég vil við lok þessa fundar þakka háttvirtum alþingismönnum samstarfið og þá sérstaklega varaforsetum, formönnum þingflokka og formönnum stjórnmálaflokkanna fyrir gott og mikið samstarf. Starfsfólki Alþingis þakka ég sömuleiðis fyrir þeirra mikilvægu störf.

Hlé verður nú á þingstörfum til þriðjudagsins 9. september er nýtt löggjafarþing, það 144. í röðinni, kemur saman. Ég óska utanbæjar-þingmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil á nýju þingi.

Upptaka af ávarpi forseta Alþingis við lok þingfunda 143. löggjafarþings 16. maí 2014.