11.7.2013

Ræða forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar, við afhendingu Þórshamars til umboðsmanns Alþingis, 11. júlí 2013

Í dag, 11. júlí, eru liðin 25 ár frá því að skrifstofa umboðsmanns Alþingis var formlega opnuð almenningi. Það eru því ákveðin tímamót þegar embætti umboðsmanns flytur starfsemi sína í Þórshamar. Þetta merka hús Alþingis hefur listrænt og menningarsögulegt gildi sem eitt af elstu steinsteyptu stórhýsum Reykjavíkur og það hefur einnig umhverfisgildi sem hluti af umgjörð Tjarnarinnar. Þessi tímamót eru einnig merkileg í ljósi þess að embætti umboðsmanns hefur fengið varanlegt aðsetur í nánasta umhverfi Alþingis.

Sjálfur á ég ágætar minningar frá þessu húsi. Sem ungur varaþingmaður fékk ég aðstöðu hér í Þórshamri og allnokkrum sinnum heimsótti ég þingmenn hingað af ýmsum tilefnum. En lengstu kynnin hafði ég af Þórshamri, þegar hér var aðsetur nefnda Alþingis. Þótt ekki hafi verið mjög rúmt um starfsemina var hér góður vinnuandi sem ekki hlaust síst af góðri sambúð og samvinnu við starfsfólk Alþingis, svo sem ætíð fyrr og síðar.

Ég er því ekki í neinum vafa um að starfsfólk umboðsmanns Alþingis muni eiga hér góða dvöl við störf að sínum mikilvægu verkefnum.

Embætti umboðsmanns Alþingis var komið á fót með lögum nr. 13/1987, en þá voru liðin rétt um 16 ár frá því að fyrst var lagt fram frumvarp á Alþingi um stofnun embættisins. Lögin voru samþykkt á Alþingi í mars 1987 og tóku gildi 1. janúar 1988. Það kom í hlut dr. Gauks Jörundssonar, sem kjörinn hafði verið umboðsmaður í desember 1987, að finna embættinu hentugt húsnæði og annast annan undirbúning. Við það naut hann sérstakrar aðstoðar Tryggva Gunnarssonar, núverandi umboðsmanns Alþingis. Á undirbúningstímanum hafði umboðsmaður aðsetur í húsnæði sérstaks ríkissaksóknara í svonefndu Hafskipsmáli í gömlu mjólkurstöðinni, þar sem nú er Þjóðskjalasafn Íslands.

Starf umboðsmanns er ekki eins og hvert annað starf. Á fjögurra ára fresti kýs Alþingi einstakling til að gegna þessu trúnaðarstarfi. Eftir að hann hefur verið kjörinn er hann sjálfstæður í störfum sínum og tekur ekki við fyrirmælum frá öðrum, þar með töldu Alþingi. Það kemur því í hlut þess sem hverju sinni gegnir starfi umboðsmanns að móta nánar starfsemi þess og innra skipulag.

Það kom því þeim ekki á óvart sem til þekktu að Gaukur legði áherslu á að val á húsnæði fyrir embættið skyldi á vissan hátt undirstrika sjálfstæði þess gagnvart þinginu og að staðsetning þess væri þannig að ekki yrði litið svo á að umboðsmaður tæki við fyrirmælum frá þinginu um störf sín. Við stofnun embættisins og á fyrstu árum þess mátti merkja að þingmenn, a.m.k. sumir hverjir, höfðu ekki áttað sig á þessu og töldu að þeir gætu leitað til umboðsmanns með einstök mál og fengið álit hans á þeim.

Minnisstæð er tillaga Stefáns Valgeirssonar haustið 1990 um að Alþingi ályktaði að aflað yrði álits umboðsmanns á því hvort bráðabirgðalög um launamál er stöðvuðu verkfall BHM brytu í bága við grundvallarreglur um stjórnskipun lýðveldisins og stjórnarskrá. Tillögunni var hins vegar vísað frá með rökstuddri dagskrá að viðhöfðu nafnakalli þar sem lög heimiluðu ekki að umboðsmaður tæki við fyrirmælum frá Alþingi. Það var engu að síður mat Stefáns að þingið hefði ekki þorað að afla álitsins. Í skopteikningu Sigmunds í Morgunblaðinu 1990 varpaði hann ljósi á málið á sinn einstaka hátt.

Embætti umboðsmanns hóf formlega starfsemi sína með opnun skrifstofu 11. júlí 1988 að Rauðarárstíg 27. Í mars 1995 flutti skrifstofan í húsnæði að Lágmúla 6 og loks í maí 2000 að Álftamýri 7. Þegar allt er talið verður Þórshamar því fjórða starfsstöð embættisins og væntanlega sú sem verður til frambúðar. Það má því með nokkrum sanni segja að umboðsmaður sé kominn heim fullur sjálfstrausts.

Á þeim tíma sem liðinn er hefur embætti umboðsmanns eflst og áunnið sér mikilsvert traust og virðingu í íslensku samfélagi. Það skiptir miklu máli að Alþingi geti fylgst með því hvernig stjórnvöld haga samskiptum sínum við borgarana og hvernig löggjöf sem varðar réttindi þeirra er framfylgt. Hefur umboðsmaður og hans starfsfólk fyllilega staðið undir þeim væntingum sem gerðar eru til þeirra í þeim efnum.

Það er mér því sérstök ánægja að fá að fela umboðsmanni þessa aðstöðu hér í Þórshamri. Megi embætti umboðsmanns halda áfram að eflast og dafna.