26.8.2020

Tilhögun þingstarfa á framhaldsfundum Alþingis í ágúst/september

Ákveðið hefur verið að stækka enn frekar það svæði á 2. hæð Alþingishússins sem ætlað er til þingfunda. Þá verða fundir nefnda alla jafna fjarfundir.

Í því skyni að tryggja örugga framkvæmd nándarreglu sóttvarna og til að stuðla að hnökralausum þingstörfum hefur forseti Alþingis ákveðið, að höfðu samráði við forsætisnefnd og þingflokksformenn, að stækka enn frekar það svæði á 2. hæð þinghússins sem ætlað er til þingfunda. Þingfundasvæðið tekur nú auk þingsalar til hliðarsala beggja megin þingsalarins. Í þingsal verða sæti fyrir 27 þingmenn og ráðherra. Aðrir ráðherrar og þingmenn fá sæti í hliðarsölum (efrideildarsal, ráðherraherbergi, lestrarsal og skjalaherbergi). Þá verður sú breyting að atkvæðagreiðsluhnappar þeirra þingmanna og ráðherra sem fá sæti í hliðarsölum verða fluttir á þau borð sem koma þar í þeirra hlut. Allir þingmenn og ráðherra hafa því fast atkvæðagreiðslusæti og geta þannig greitt atkvæði beint úr sæti sínu með rafrænum hætti.

Skjáir verða í hliðarsölum sem gerir þingmönnum, sem þar setjast, mögulegt að fylgjast með ræðum í salnum. Þingmenn í hliðarsölum, sem vilja fara á mælendaskrá, geta sent póst til þingfundaskrifstofu eða beðið starfsfólk á svæðinu að koma boðum til forseta. Starfsfólk mun jafnframt koma beiðnum um andsvar til forseta.

Fundir nefnda Alþingis verða almennt fjarfundir og gestir taka þátt í fundum í gegnum fjarfundabúnað. Eina undantekningin frá því verður ef nefnd eins og fjárlaganefnd kýs að halda hefðbundinn fund, án gesta, og að því tilskildu að nefndarmenn geti dreift úr sér í stóru fundarherbergi og gæti vel að smitvörnum.

Miðað er við að samgangur milli einstakra húsa Alþingis verði eins takmarkaður og mögulegt er. Gestakomur eru ekki leyfðar og þingpallar verða lokaðir. Jafnframt verður Skólaþing fellt niður um sinn og að minnsta kosti fram í október.

Mötuneytið mun starfa í samræmi við sóttvarnir og því er matur afgreiddur í bökkum. Miðað er við að þingmenn snæði að jafnaði í matsal en starfsfólk á sinni starfsstöð.

Í samræmi við ráðleggingar sóttvarnalæknis er áfram brýnt fyrir þingmönnum og starfsfólki að þvo og spritta á sér hendur, lágmarka þann tíma sem þeir eru í fjölmenni og að virða nándarregluna. Þeim sem í einhverjum tilfellum óska eftir andlitsgrímu og hanska geta nálgast slíkt hjá þingvörðum í Skála.